Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Sáum alls staðar merki um kosningasvindl“

12.08.2020 - 09:36
Mynd: RÚV / RÚV
Þingmennirnir Bryndís Haraldsdóttir og Kolbeinn Óttarsson Proppé fóru til Hvíta-Rússlands í fyrra til þess að sinna kosningaeftirliti í þingkosningum sem fram fóru í nóvember. Þau segja að úrslit nýliðinna forsetakosninga komi sér lítið á óvart en þau urðu vör við alls kyns kosningasvindl þegar þau voru við eftirlit í þingkosningunum.

Alexander Lúkasjenkó, sem hefur verið við völd í Hvíta-Rússlandi síðan 1994, sigraði með áttatíu prósenta fylgi í kosningum á sunnudag. Deildar meiningar eru þó um gildi kosningarinnar, sem hefur hrundið af stað mótmælaöldu í höfuðborginni Minsk. Mótframbjóðandi Lúkasjenkós, Svetlana Tsíkhanovskaja, hefur flúið frá landinu og er nú í Litháen. Bryndís segir þjóðina bersýnilega þreytta á ríkjandi stjórnarháttum

„Því miður kemur ekkert manni á óvart. Nema að það lítur út fyrir að þjóðin sé að segja hingað og ekki lengra. Og þá er bara að krossa fingur og vona að það verði ekki mjög blóðug bylting sem því fylgir,“ segir Bryndís. 

Veigraði sér við að hafa samband við kunningja

Þau Kolbeinn eru sammála um að þingkosningarnar sem þau voru viðstödd hafi verið afar lágstemmdar en ástæðan fyrir því er hugsanlega sú að forsetinn hefur hrifsað svo til öll völd af þinginu. Kolbeinn hefur haldið sambandi við nokkra kunningja sem hann eignaðist þegar hann var í Hvíta-Rússlandi, en hann veigraði sér þó við að hafa samband við þá í kringum kosningarnar vegna tortryggni forsetans í garð erlendra afla. 

Kolbeinn, sem sinnti aðallega kosningaeftirliti utan höfuðborgarinnar, segir að hann hafi orðið var við ummerki um kosningasvindl hvert sem hann fór. Þá hafi hátt hlutfall kjósenda greitt atkvæði utan kjörfundar, sem auðveldar alls kyns svindl og hagræðingar. „Það var stór kladdi sem þú skrifar undir þegar þú kýst en þar var búið að kvitta undir tíu til tuttugu nöfn í knippi með sömu rithönd. Alls konar svoleiðis sem fólk var búið að vera að dunda sér við,“ segir hann. 

Stoppuð af þegar þau bentu á misferli

Bryndís segir að svipað hafi verið uppi á teningnum í Minsk. Hún og kollegi hennar sáu fljótlega vísbendingar um kosningasvindl. Þau voru fljótlega stoppuð af eftir að þau hófu að benda á misferlið. 

„Svo eiginlega keyrði þetta um þverbak þegar ég var viðstödd talninguna sjálfa. Þá telja þau inn í hverja kjördeild [...] Atkvæðin eru sett á borðið úr einum og hálfum kassa, þetta var ekki mikið magn. Þetta sama fólk og var við kosninguna setur í bunkana og svo stóð það við hvern bunka. Hver bunki táknaði einn frambjóðanda og maður sá að þeir voru misháir. Svo þegar fólk fór að telja og yfirmaðurinn labbaði á milli með bókina sína, þá máttu þau aldrei segja upphátt hvað þau hefðu talið. Það var algörlega augljóst að þarna var yfirmaðurinn með bókina að reikna út og bunkinn sem var hæstur var ekki endilega sá sem var raunverulega með flest atkvæði,“ segir Bryndís.