Náðu fleiri tilfellum hér í samanburði við aðrar þjóðir

12.08.2020 - 15:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Magnússon - RÚV
Viðbrögð stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum í vor gerðu það að verkum að Íslendingar náðu hlutfallslega að greina fleiri tilfelli en aðrar þjóðir. Þetta segir Elías Eyþórsson, læknir og fyrsti höfundur nýrrar rannsóknar á sjúkdómseinkennum COVID-smitaðra einstaklinga hérlendis.

Rannsóknin tekur til allra þeirra sem fengu jákvætt PCR-próf úr munn- eða nefstroki hér á landi frá 31. janúar til 30. apríl. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar voru 22,3 prósent Íslendinga sem greindust með COVID-19 í febrúar, mars og apríl með sjúkdómseinkenni sem samræmdust ekki skilmerkjum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þegar þeir greindust. Stærstur hluti Íslendinga sem greindist á þessum tíma fann fyrir vægum einkennum í gegnum allt veikindatímabilið.  

„Það sem rannsóknin sýndi er að flestir af þessum 1.797 einstaklingum voru með væg einkenni út sinn sjúkdómstíma. Þetta teljum við endurspegla það, að út af þeim viðbrögðum sem voru viðhöfð hér í sambandi við Íslenska erfðagreiningu og almenn viðbrögð stjórnvalda, að við höfum náð mikið hærri prósentu af tilfellum samanborið við aðrar þjóðir og höfum þess vegna fundið fleiri sjúkdómstilfelli þar sem væg einkenni voru til staðar,“ segir Elías.

Aðeins helmingur þróaði með sér sótthita

Elías segir að niðurstöður rannsóknarinnar endurspegli betur en aðrar rannsóknir hvaða einkenni COVID-smitaðir finna fyrir. Stór meirihluti hefur væg einkenni allan tímann og margir finna ekki fyrir dæmigerðum einkennum kórónuveirusýkingar.

„Við sjáum það líka að einkenni sem eru gjarnan tengd við COVID, sem eru hósti og hiti, eru ekkert endilega til staðar hjá öllum. Einungis um helmingjur þeirra sem greindust með COVID þróaði nokkurn tímann með sér hita og flestir gerðu það á fyrstu þremur, fjórum dögunum. Þannig að stærstur hluti af einstaklingunum sem greindust með COVID var kannski með höfuðverk, nefrennsli, slappleika, kannski vöðva- og beinverki, en ekki endilega þessi klassísku einkenni sem oft eru tengd við COVID-sjúkdóminn,“ segir Elías. 

Sýnir þetta fram á gagnsemi þess að skima ekki bara þá sem eru með dæmigerð COVID-einkenni?

„Ég þarf að fara varlega í að fullyrða um það. Það sem ég myndi segja er að þau viðbrögð sem voru höfð hérna á Íslandi á þessum tíma skiluðu sér greinilega. Faraldurinn gekk yfir á þeim tíma, sem segir okkur að skimunarstarfsemin sem var hérna höfð, þar sem fólk var sett í sóttkví, virkaði,“ segir Elías. Hann bætir við að hægt sé að draga þann lærdóm af gögnum rannsóknarinnar að það ætti ekki að neita fólki um próf þótt það finni ekki fyrir hita eða öndunarfæraeinkennum. „Og ég held að það sé kannski niðurstaðan úr þessu að við þurfum að hafa aðeins lægri þröskuld fyrir fólk sem telur sig jafnvel hafa verið útsett, sem er með einkenni sem það hefur ekki í grunninn. Þá segir þessi grein okkur að slík einkenni geta vel samrýmst COVID-sjúkdómi.“

Elías segir athylisvert að rúmlega tuttugu prósent af þeim sem greindust hér á landi hafi ekki fundið fyrir einkennum sem samræmast skilmerkjum WHO fyrir skimun eða prófi á þeim tíma sem þau voru greind. „Það er eitthvað sem við teljum kannski áhugaverða niðurstöðu fyrir vísindasamfélagið í heild sinni. En í ljósi þess hvað það hefur gengið vel hérna þá hefur þetta kannski minni áhrif á Íslandi,“ segir hann. 

Elías segist bjartsýnn um að greinin verði senn birt í ritrýndu fræðitímariti. Hana má nálgast í heild sinni hér

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi