Evrópuríki eiga í vök að verjast

12.08.2020 - 16:19
epa08599102 People are wearing mask in Brussels , Belgium, 12 August  2020. Brussels region authorities decided on 12 August to make face masks compulsory in all public spaces, in the 19 districts of Brussels as an average of 50 cases of Covid-19  per 100,000 inhabitants per day was recoded in the region over the last week.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Smitum fjölgar hratt víða í Vestur-Evrópu þessa dagana og yfirvöld bregðast við með auknum takmörkunum og grímuskyldu. Sérfræðingar á Spáni og í Frakklandi segja næstu daga skera úr um það hvort takist hafi að ná böndum á faraldrinum. BBC greinir frá.

Þýskir ferðalangar koma heim með smit

Síðasta sólarhringinn greindust 1.200 ný smit í Þýskalandi. Smitum hefur ekki fjölgað jafnhratt þar í landi í þrjá mánuði. Jens Spahn, heilbrigðisráðherra landsins, hefur gefið það út að fjölgunina megi helst rekja til Þjóðverja sem snúa heim úr ferðalögum. Þjóðverjar höfðu varað sérstaklega við ferðalögum til Spánar og hafa nú ítrekað þá viðvörun.

Smitum fjölgar aftur á Spáni

Spánn er það Evrópuríki sem hefur tilkynnt um flest smit frá því faraldurinn tók sig fyrst upp og þar berst veiran hratt milli manna þessa dagana. Spænsk yfirvöld tilkynntu um 1.418 nýjar sýkingar síðasta sólarhringinn. BBC hefur eftir sérfræðingi í heilbrigðisvísindum í Opna háskólanum í Katalóníu að þjóðin standi nú á tímamótum: „Nú getur ástandið versnað eða batnað. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná utan um hópsýkingar áður en þær verða enn alvarlegri.“ 

Grímuskylda í Brussel og París

Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í Brussel í Belgíu tilkynntu borgaryfirvöld í gær að íbúum væri skylt að bera grímur á öllum almenningssvæðum borgarinnar. Áður hafði aðeins verið krafist þess að fólk bæri grímur í þéttsetnum almenningsrýmum. Eftirlit lögreglu í borginni vegna sóttvarnarreglna hefur verið eflt til muna.

Maraþonhlaupinu í París í Frakklandi sem átti að fara fram þann 15. nóvember hefur verið aflýst. Rétt eins og í Brussel er fólki skylt að bera grímur á almenningssvæðum í París og lögregla hefur eftirlit með því að fólk fylgi sóttvarnarreglum.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi