Dýpsta efnahagslægð sögunnar er nú í Bretlandi, en samkvæmt hagstofunni þar í landi minnkaði verg landsframleiðsla um rúmlega fimmtung í öðrum ársfjórðungi. Þetta er jafnframt fyrsta efnahagslægðin í landinu í ellefu ár.
Sé mið tekið af stöðunni við árslok í fyrra hefur landsframleiðslan hnignað um 22,1 prósent. Að sögn hagstofunnar virðist þó aðeins vera að rofa til, þar sem framleiðsla hefur aukist lítillega eftir að stjórnvöld afléttu hömlum vegna heimsfaraldursins í júní.
Þá er sleginn sá varnagli varðandi fyrri tvo ársfjórðunga þessa árs vegna erfiðleika stofnunarinnar við að afla gagna frá stjórnvöldum sökum faraldursins.
Stærsta ástæða lægðarinnar er hrun í einkaneyslu. Almenningur eyddi nærri fjórðungi minna á öðrum ársfjórðungi heldur en þeim fyrsta á þessu ári.