Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þrjú smit hjá andstæðingum Víkinga

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Þrjú smit hjá andstæðingum Víkinga

11.08.2020 - 21:20
Slóvensku deildinni í fótbolta hefur verið frestað til 22. ágúst eftir að þrjú smit greindust í röðum liðs Olimpija Lju­blj­ana. Olimpija á að mæta Víkingi R. í forkeppni Evrópudeildarinnar ytra þann 27. ágúst.

Deildarkeppni í Slóveníu átti að hefjast á morgun en hefur nú verið frestað um tíu daga eftir að smitin þrjú greindust innan raða Olimpija. Leikmennirnir fara nú í sóttkví en ekki liggur fyrir hvaða áhrif þetta mun hafa á Evrópuleik Olimpija og Víkinga.

Ekki er um að ræða fyrstu vandræði sem upp koma vegna Evrópuleikja hérlendra liða. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvort eða hvar FH keppir sinn Evrópuleik við slóvakíska liðið Dunajská Streda sem á að fara fram í Kaplakrika 27. ágúst.

Þá á KR að mæta Celtic í Glasgow 18. ágúst næst komandi en allt hefur logað í Skotlandi í dag eftir að leikmaður Celtic, Boli Bolingoli, braut sóttvarnarreglur. Celtic átti að spila tvo leiki heima fyrir í aðdraganda leiksins við KR en þeim hefur verið frestað vegna atviksins.