Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Skiptar skoðanir um bók um Harry og Meghan

epa08597184 Copies of the book "Finding Freedom:Harry and Meghan and the Making of a Modern family" by Omid Scobie and Carolyn Durand are displayed for sale at a bookstore in London, Britain 11 August 2020. Finding Freedom is a biography of Prince Harry and Meghan Markle, the Duke and Duchess of Sussex promising reactions about Britain's Royal family. The book is released on 11 August 2020.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bókar um hertogahjónin af Sussex, þau Harry Bretaprins og Meghan var víða beðið með talsverðri eftirvæntingu þegar hún kom út í dag. Væntingar voru um að í bókinni yrði hulunni svipt af einkalífi hjónanna og hvað olli því að þau eru nú hornreka í bresku konungsfjölskyldunni. Í breskum fjölmiðlum eru skiptar skoðanir um hvort bókin sé sú opinberun sem vænst var, en þar kemur þó ýmislegt fram um hjónin sem ekki hefur verið greint frá áður.

Bókin heitir Finding Freedom og er skrifuð af blaðamönnunum Carolyn Durand og Omid Scobie sem bæði hafa skrifað talsvert um bresku konungsfjölskylduna. Höfundarnir fullyrða að hertogahjónin hafi hvergi komið nærri skrifum bókarinnar, en breskir fjölmiðlar fullyrða að ýmis smáatriði gefi til kynna að þau hafi átt einhvern hlut að máli. 

Í umfjöllun The Guardian um bókina segir meðal annars að Harry hafi augljóslega fetað í fótspor móður sinnar Díönu heitinnar prinsessu, sem fékk blaðamenn gjarnan til samstarfs undir leynd þegar hún vildi koma einhverju á framfæri.

Sýndu Meghan lítilsvirðingu

Meðal þess sem fram kemur í bókinni er að breska hirðin og starfsfólk konungsfjölskyldunnar hafi lítið gert til að hlífa Meghan við vægðarlausri umfjöllun bresku pressunnar og að hjónin hafi verið látin taka sökina á því þegar samskipti innan fjölskyldunnar fóru versnandi. Þar kemur einnig fram að eldri meðlimir konungsfjölskyldunnar hafi sýnt Meghan lítilsvirðingu sem hafi mátt rekja til húðlitar hennar. 

Þá er greint frá því í bókinni að Meghan hafi fengið leiðsögn í hirðsiðum og konunglegri hegðun frá Elísabetu Englandsdrottningu og að hún hafi tekið þessu nýja hlutverki sínu, sem meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar, afar alvarlega.  Í bókinni kemur fram að samband Harrys við ömmu sína, drottninguna, sé „afar sérstakt“ og að það muni áfram verða það.

Voru nánir, en talast vart við

Nokkuð er fjallað um samband bræðranna Harrys og Vilhjálms, hertoga af Cambridge. Bræðurnir eru sagðir hafa verið afar nánir, en nánast full vinslit hafi orðið á milli þeirra og þeir talist vart við.

Harry og Meghan, sem áður bar eftirnafnið Markle, eru nú búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum með Archie syni sínum. Þau sögðu sig frá öllum konunglegum embættisskyldum í janúar síðastliðnum, eftir svokallað „Megxit“ . Í kjölfarið tilkynnti breska hirðin að þau myndu missa titla sína og yrðu ekki lengur hans og hennar konunglega hátignir. Þau halda titlum sínum sem hertogi og hertogaynja af Sussex, en þá titla fengu þau frá ömmu Harrys á brúðkaupsdaginn.