
Fyrsti ráðherra Norðursvæðisins, Michael Gunner, sagði í sjónvarpsviðtali í gær að landamæri svæðisins yrðu harðlokuð gagnvart fólki frá áhættusvæðum út árið 2021. „Þetta er það sem ég held að ég þurfi að gera til að tryggja öryggi eins viðkvæmasta samfélagshóps í heimi,“ sagði Gunner. Landamærin eru nú þegar lokuð gagnvart íbúum Sydney og Viktoríuríkis, og reiknar Gunner með því að fleiri áhættusvæði bætist í þeirra flokk von bráðar.
Fá smit en langt í heilbrigðisþjónustu
Afar fá kórónaveirusmit hafa greinst á Norðurvæðinu og engin dauðsföll verið rakin til COVID-19. Leiðtogar frumbyggja hafa lýst áhyggjum af því að sóttin gjósi upp í samfélögum þeirra, sem mörg hver eru afar afskekkt og heilbrigðisþjónusta öll í skötulíki.
Ástralía líka lokuð fyrir umheiminum
Farsóttin hefur verið í vexti í Ástralíu síðustu vikur, eftir að hafa hjaðnað nokkuð fyrr í sumar. Nær 22.000 kórónaveirutilfelli hafa greinst þar í landi og 332 dáið úr COVID-19. Landamæri Ástralíu eru raunar lokuð fyrir öllum almennum gestum frá öðrum ríkjum, og munu verða það áfram þar til annað verður ákveðið.