Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Laxveiðin á við slakt meðalár

11.08.2020 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Formaður Landssambands veiðifélaga segir sölu á veiðileyfum í sumar hafa gengið betur en á horfðist í vor og Íslendingar hafi keypt meira af þeim en áður. Mikil veiði hefur verið í Eystri-Rangá í sumar og Hofsá virðist vera að sækja í sig veðrið á ný.

„Það má nú segja varðandi laxveiðina að þetta sé slakt meðal ár, það má orða það þannig, svona verið minni smálax heldur en menn álitu að það yrði“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.

Jákvætt sé að það hafi verið mjög góð veiði í Eystri-Rangá og sleppingar greinilega gengið vel. Þar var búið að veiða tæplega 4.000 laxa í byrjun ágúst, á sama tíma í fyrra voru þeir um 1800 og árið áður um 2000.  

Hofsá að sækja í sig veðrið á ný

Jón Helgi segir sérstaklega gaman að sjá hvað Hofsá hafi komið upp í veiðinni. og segir vert að nefna Jöklu, þar sé greinilega ný laxveiðiá í fæðingu. Ekki sé langt síðan hún hafi verið öskrandi jökulfljót en þar sé nú komið mikið líf. Silungsveiði segir hann hafa verið prýðilega góða víða um land.

Hentug afþreying á COVID tímum

Jón Helgi segir sölu á veiðileyfum hafa gengið betur en á horfðist í vor þó hún sé sennilega slakari heldur en síðustu ár. Talsvert af erlendum viðskiptavinum hafi komið til landsins og Íslendingar hafi keypt meira af veiðileyfum en árið áður. 

„Þetta er kannski svona það sport sem er auðvelt að stunda svona án þess að vera í einhverri smithættu þannig að menn hafa auðvitað nýtt sér það við þessar aðstæður“ segir Jón Helgi.