Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Landamæri Gaza og Egyptalands opnuð í 72 klukkustundir

11.08.2020 - 13:40
epa04769241 Palestinians wait for their relatives to cross from Egypt to the Gaza Strip on the Palestinian side at Rafah border crossing, in Rafah town in the southern Gaza Strip, 26 May 2015. Reports state that Egypt re-opened the border for two days
 Mynd: EPA
Landamæri Gazasvæðisins og Egyptalands í Rafah eru nú opin í báðar áttir. Það er í fyrsta sinn frá því að kórónuveirufaraldurinn brast á í mars. Opnunin varir í 72 klukkustundir.

Hamas-samtökin ákváðu lokunina í mars til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins á Gaza. Svæðið er mjög þéttbýlt og innviðir þess afar veikir. Þar hefur nú verið skráð 81 kórónuveirusmit.

Landamærin voru opnuð í apríl svo þeir íbúar Gazasvæðisins sem voru strandaglópar í Egyptalandi gætu snúið til síns heima.

Þegar í dögun höfðu hundruð safnast við landamærahliðið til að komast yfir til Egyptalands. Í samtali við fréttamann AFP sagðist íbúi Gazasvæðisins ætla yfir landamærin eftir læknisaðstoð.

Hann sagðist þó óttast að smitast af Covid-19 í Egyptalandi en þar eru skrásett smit 95 þúsund talsins. Þau sem snúa aftur frá Egyptalandi verða skimuð og fá afhenta andlitsgrímu. Að því búnu þurfa þau að dvelja í sérstakri einangrun um þriggja vikna skeið.