
Landamæri Gaza og Egyptalands opnuð í 72 klukkustundir
Hamas-samtökin ákváðu lokunina í mars til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu faraldursins á Gaza. Svæðið er mjög þéttbýlt og innviðir þess afar veikir. Þar hefur nú verið skráð 81 kórónuveirusmit.
Landamærin voru opnuð í apríl svo þeir íbúar Gazasvæðisins sem voru strandaglópar í Egyptalandi gætu snúið til síns heima.
Þegar í dögun höfðu hundruð safnast við landamærahliðið til að komast yfir til Egyptalands. Í samtali við fréttamann AFP sagðist íbúi Gazasvæðisins ætla yfir landamærin eftir læknisaðstoð.
Hann sagðist þó óttast að smitast af Covid-19 í Egyptalandi en þar eru skrásett smit 95 þúsund talsins. Þau sem snúa aftur frá Egyptalandi verða skimuð og fá afhenta andlitsgrímu. Að því búnu þurfa þau að dvelja í sérstakri einangrun um þriggja vikna skeið.