Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gamall draumur rætist um kvennaathvarf á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd:
Nýtt kvennaathvarf verður opnað á Akureyri þann 28. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Samtök um kvennaathvarf og Bjarmahlíð sendu frá sér í dag. Athvarfið er ætlað konum og börnum sem ekki geta búið heima hjá sér vegna ofbeldis.

Bjarmahlíð hefur sinnt þjónustu við þolendur ofbeldis á Norðurlandi síðasta árið og athvarfið verður viðbót við þá starfsemi. „Þetta er gamall draumur að rætast hjá okkur. Það var ljóst að það þyrfti líka að bjóða upp á búsetuúrræði á Norðurlandi,“ segir Sigþrúður Guðmundsdóttir framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf í samtali við fréttastofu. 

„Þetta er fyrsta skrefið út á landsbyggðina. Við vorum bara með búsetuúrræði á höfuðborgarsvæðinu og höfum fengið hlutfallslega of fáar konur utan að landi til okkar á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum vitað að það er engin ástæða til að ætla að ofbeldi sé síður algengt úti á landi,“ segir hún. 

Í tilkynningu frá Bjarmahlíð og Samtökum um kvennaathvarf kemur fram að athvarfið verði opnað í samstarfi við sveitarfélög á Norðurlandi eystra, Aflið, félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra.

Opnun athvarfsins verður tilraunaverkefni til vors en Sigþrúður segist bjartsýn á að athvarfið verði starfrækt til lengdar. Signý Valdimarsdóttir félagsráðgjafi hefur hafið störf sem verkefnisstýra nýja athvarfsins og vinnur nú að undirbúningi opnunar.