Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Binda vonir við nýtt lyf við Alzheimer

11.08.2020 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay
Bandaríska lyfjafyrirtækið Biogen hefur fengið flýtimeðferð við leyfisumsókn hjá Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna við þróun lyfs sem á að nýtast þeim sem glíma við Alzheimer-sjúkdóminn. Talsverðar væntingar eru gerðar til lyfsins, þó að ekki sé tímabært að fagna of snemma að mati stjórnarformanns Alzheimersamtakanna hér á landi.

Alzheimer-sjúkdómur er taugahrörnunarsjúkdómur og algengasta orsök heilabilunar. Sjúkdómurinn er algengastur hjá eldra fólki, en yngra fólk getur líka fengið sjúkdóminn. Einkennin eru lengi að koma fram og geta verið bæði lúmsk og margslungin. Þegar greining liggur fyrir áttar fólk sig gjarnan á því að ferlið hafi verið mun lengra en það hafði gert sér grein fyrir. Eitt helsta einkennið er gleymska og eftir því sem á líður aukast einkennin og hafa meiri áhrif á lífsgæði fólks. Því getur fylgt mikill kvíði og vanlíðan. Enn sem komið er er ekki til lækning við sjúkdómnum og engin eiginleg lyf, en þó hafa fengist lyf sem hægja á honum og auka lífsgæði sjúklinga. 

Vongóð um virkni lyfsins

Lyfið sem nú er í þróun heitir Aducanumab. Það er enn í þróun og því of snemmt að fullyrða nokkuð um endanlegar niðurstöður að sögn Árna Sverrissonar, stjórnarformanns Alzheimersamtakanna. Samkvæmt þeim niðurstöðum sem liggja fyrir núna virðast einkenni sjúkdómsins ganga til baka og er það í fyrsta skipti sem lyf skilar þeim árangri. Þess ber þó að geta að þessar upplýsingar byggja eingöngu á gögnum frá lyfjafyrirtækinu. Hann segir það þó sýna að gögnin séu trúverðug að FDA (bandaríska matvæla- og lyfjastofnunin) samþykki flýtimeðferð leyfisumsóknarinnar. Engin lyf tengd sjúkdómnum hafa komið á markað seinustu 15 ár.

„Á undanförnum árum hefur gríðarleg áhersla verið lögð á rannsóknir á heilabilun og lyfjaþróun því samfara.  Enn hefur það ekki skilað árangri og fyrir þremur árum var hætt við frekari þróun þriggja stórra rannsókna sem í upphafi höfðu verið bundnar miklar vonir við.  Þetta er því áfangi hjá Biogen sem beðið hefur verið eftir og miklar vonir eru bundnar við. Það er þó of fljótt að fagna strax,“ segir Árni.

Þrjú til fimm þúsund með heilabilun hér á landi

Hann segir að Alzheimer sé einn af mörgum sjúkdómum sem orsakar heilabilun. Hann er þeirra algengastur og orsakar um 50-60 prósent tilfella. Sjúkdómurinn myndar efni í heilanum sem lokar fyrir tengingar á milli heilastöðva. Þannig hættir einstaklingurinn að geta sótt minningar sínar og þekkingu. 

Lögbundin skráning á heilabilun hefur ekki verið til staðar hér á landi fram til þessa. Á síðasta þingi var lögum um Landlæknisembættið þó breytt og er unnið að því að hefja skráningu þeirra sem glíma við sjúkdóminn á næstunni. Sé litið til nágrannalanda og hlutfall þeirra sem glíma við heilabilun þar heimfærðar hingað til lands má ætla að á bilinu þrjú til fimm þúsund manns glími við heilabilun af einhverju tagi.

Árni segir mjög mikilvægt að ná utan um umfang þessa hóps til að geta metið þjónustuþörf hans á heimilum, í dagþjálfun og á hjúkrunarheimilum. Þessi hópur þurfi sértæka þjónustu og umönnunarfólk þurfi sérstaka þjálfun til að veita góða þjónustu. Samhliða hækkandi aldurskúrfu þjóðarinnar aukist fjöldi þeirra sem glíma við heilabilun.