Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

United þurfti framlengingu gegn Kaupmannahöfn

epa08596359 Manchester United's Bruno Fernandes (L) scores the 1-0 penalty goal past Copenhagen's goalkeeper Kalle Johnsson (R) during the UEFA Europa League quarter final soccer match between Manchester United and FC Copenhagen in Cologne, Germany, 10 August 2020  EPA-EFE/Sascha Steinbach / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL

United þurfti framlengingu gegn Kaupmannahöfn

10.08.2020 - 21:40
Manchester United og Internazionale frá Mílanó tryggðu sæti sín í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta í kvöld. Framlengja þurfti leik United við F.C. Kaupmannahöfn.

 

Ragnar Sigurðsson var ekki með liði Kaupmannahafnar vegna meiðsla er það mætti Manchester United í Köln í kvöld. Þar voru að mætast fyrrum félagar; Ståle Solbakken, stjóri FCK, og Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, sem voru samherjar í norska landsliðinu á tíunda áratug síðustu aldar.

United-liðið virtist mæta værukært til leiks þar sem þeir dönsku fengu fín færi í upphafi leiks sem tókst þó ekki að nýta. Yfir heildina litið var United-liðið hættulegra en þó brothætt aftarlega á vellinum. Svíinn Karl-Johan Johnsson varði oft á tíðum frábærlega í marki Kaupmannahafnar og þá voru tvö mörk dæmd af United-liðinu í síðari hálfleik.

Ekki tókst þeim dönsku að nýta sín færi frekar en United og markalaust var að venjulegum leiktíma loknum. Framlenging tók því við þar sem bera fór á þreytu þeirra dönsku. Anthony Martial fiskaði vítaspyrnu eftir aðeins fjögurra mínútna leik í framlengingunni og skoraði Portúgalinn Bruno Fernandes af öryggi úr spyrnunni. Það dugði til og 1-0 sigur United niðurstaðan. Liðið er því komið í undanúrslit keppninnar þar sem það mætir annað hvort Wolves í enskum slag eða spænska liðinu Sevilla. Þau mætast í 8-liða úrslitunum annað kvöld.

Sterkur sigur Inter

Inter og Leverkusen mættust í Düsseldorf í kvöld þar sem miðjumaðurinn Niccolo Barella kom þeim ítölsku í forystu eftir stundarfjórðungsleik með laglegu utanfótarskoti frá vítateigslínunni. Skömmu síðar tvöfaldaði belgíski framherjinn Romelu Lukaku forystu Inter þegar hann skoraði af miklu harðfylgi.

Ungstirnið Kai Havertz, sem gæti hafa verið að spila sinn síðasta leik fyrir Leverkusen í kvöld, minnkaði muninn í 2-1 á 24. mínútu leiksins en eftir þau þrjú mörk á níu mínútna kafla urðu þau ekki fleiri. Inter vann 2-1 og er því komið í undanúrslit keppninnar. Þar mætir liðið annað hvort Shakhtar Donetsk frá Úkraínu eða Basel frá Sviss en þau eigast við annað kvöld.