Tveir ákærðir fyrir amfetamínframleiðslu í heimahúsi

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Héraðssaksóknari hefur ákært Matthías Jón Karlsson og litháískan ríkisborgara fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þeir er ákærðir fyrir að hafa staðið að framleiðslu og haft í vörslu sinni rúm 11 kíló og 3,3 milllítra af amfetamíni ætluðu til sölu og dreifingar. Matthías Jón var dæmdur í fyrra í Bitcoin-málinu, svokallaða, og bíður afplánunar.

Mennirnir tveir eru ákærðir fyrir að hafa staðið að framleiðslu efnanna dagana 28. apríl til 12. maí í vor í íbúð að Grýtubakka í Breiðholti. Þrír voru handteknir 11. maí og úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Ákæran var gefin út þann 4. ágúst.

Þar kemur fram að tæp fjögur kíló af efninu hafði 20% styrkleika, rúm 7 kíló hafði styrkleika á bilinu 6 til 9,2%. Við húsleit fundust einnig fjármunir og búnaður til að framleiða fíkniefnið svo sem sprautunálar, balar, mælikönnur, öndunargrímur og lofttæmingarvél og pokar. Kvittanir fyrir vörum úr Costco, Dynjanda, BYKO og Hróðgeiri spaka fundust við húsleit.

Þá krafðist héraðssaksóknari þess að þeir fjármunir sem fundust og voru í eigu Litháans að upphæð 761.000 króna yrðu gerðir upptækir ásamt öllum ofangreindum búnaði auk axar, bréfpoka með hári í, stíflueyðis, leigusamnings á höggborvélum og hleðslutækjum, fjögurra farsíma og Motorola talstöðvar.

Bíður þess enn að hefja afplánun

Matthías Jón hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi í Bitcoin-málinu svokallaða, næstþyngstu refsinguna í málinu á eftir Sindra Þór Stefánssyni sem var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Þeir áfrýjuðu báðir dómum sínum til Landsréttar og hafa því hvorugur hafið afplánun.

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi