Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tsíkhanovskaja neitar að viðurkenna ósigur

10.08.2020 - 12:32
Mynd: AP / AP
Yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands hefur lýst Alexander Lúkasjenkó sigurvegara í forsetakosningunum í gær. Hann hafi fengið 80,23%.  Svetlana Tsíkhanovskaja, helsti andstæðingur hans, er sögð hafa fengið 9,9% atkvæða. Fáir leggja trúnað á þessar tölur, meðal annars lýstu þýsk stjórnvöld miklum efasemdum í yfirlýsingu í morgun.

Ekkert alþjóðlegt eftirlit

Það voru margir vantrúaðir á tölurnar sem Lidia Yermoshina, formaður yfirkjörstjórnar Hvíta-Rússlands,  las upp að talningu lokinni í gærkvöld. Engir alþjóðlegir eftirlitsmenn fylgdust með þessum kosningum eða talningu atkvæða.

Tikhanovskaya neitar að viðurkenna ósigur

Ég trúi eigin augum og veit að meirihlutinn kaus mig, sagði Svetlana Tsíhanovskaja, forsetaframbjóðandi, eftir að hafa heyrt tölurnar frá yfirkjörstjórn Hvíta-Rússlands í gærkvöld. Hvorki hún né margir aðrir trúa því að hún hafi einungis fengið 9,9% atkvæða en Alexander Lúkasjenkó 80,23%.

Mestu mótmæli í stjórnartíð Lúkasjenkós

Mannfjöldi flykktist út á götur höfuðborgarinnar Minsk og margra annarra borga Hvíta-Rússlands í gærkvöld þegar spár yfirvalda bentu til yfirburðasigurs Lukashenkos, sem stýrt hefur landinu í aldarfjórðung. Fréttaskýrendur segja að mótmælin í gær séu hin fjölmennustu gegn Lukashenko og stjórn hans nokkru sinni. Fréttamaður Sky sjónvarpsstöðvarinnar ensku sagði að forsetinn væri óttasleginn.

,,Hypjaðu þig, hypjaðu þig"

Í Minsk hrópuðu andstæðingar Lukashenkos: „Hypjaðu þig, hypjaðu þig.“ Lögreglan reyndi að dreifa mannfjöldanum með gúmmíkúlum, kylfum, háþrýstidælum, táragasi og hvellsprengjum.

3000 handtekin og tugir særðust

Innanríkisráðuneytið segir að lögreglan hafi handtekið 3000 manns fyrir að hafa tekið þátt í ólöglegum samkomum. Segir í tilkynningu ráðuneytisins að mótmælendur hafi veist að lögreglu með því að kasta grjóti og öðru lauslegu, fólk hafi reist götutálma og dreift nöglum og oddhvössum hlutum á stræti. 50 almennir borgarar og 39 lögreglumenn hafi særst í átökunum. Mótmælin stóðu langt fram eftir nóttu.

Fullvissir um að brögð hafi verið í tafli

Víst er að andstæðingar Lúkasjenkós forseta eru þess fullvissir að brögð hafi verið í tafli. Forsetinn lét handtaka fjölda andstæðinga fyrir kosningar, meinaði helstu andstæðingum að bjóða sig fram, beitti fjölmiðlum landsins fyrir sig og meinaði öðrum að aðgang að þeim.

Vantrú á úrslitin í grannríkjum

Margir grannar Hvít-Rússa hafa lýst efasemdum um úrslitin, þannig segir í yfirlýsingu Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, að styðja verði Hvítrússa í baráttu þeirra fyrir frelsi. Pólverjar vilja að ríki Evrópusambandsins komi saman á neyðarráðstefnu vegna stöðunnar í Hvíta-Rússlandi.