Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þjóðverjar mótmæla hugmyndum um viðskiptabann

10.08.2020 - 16:10
epa08289422 German Minister of Foreign Affairs Heiko Maas attends a joint press statement in Berlin, Germany, 12 March 2020. Foreign Minister of Bolivia Karen Longaric Rodriguez meets the German counterpart in Berlin and discussed on bilateral issues.  EPA-EFE/HAYOUNG JEON
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Þýski utanríkisráðherrann Heiko Maas lýsir yfir vanþóknun sinni við Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna vegna hótana Bandaríkjamanna um að beita viðskiptabanni á höfnina í Sassnitz við Eystrasalt. Ástæðan er tengsl borgarinnar við lagningu Nord Stream 2 gasleiðslunnar.

Í síðustu viku hvöttu þrír öldungadeildarþingmenn vestra til að þarlend stjórnvöld gripu til harðra aðgerða gagnvart Sassnitz. Gasleiðslur frá Rússlandi til Evrópu hafa lengi verið þyrnir í augum bandarískra stjórnvalda.

Samband Þýskalands og Bandaríkjanna hefur verið með ágætum um áratugaskeið en samskipti Angelu Merkel kanslara og Trumps Bandaríkjaforseta hafa löngum verið stirð.

Lagning Nord Stream 2 leiðslunnar um Eystrasaltið frá Rússlandi til Þýskalands hófst í september 2018. Leiðslan er 1200 kílómetra löng, 120 sentímetrar í þvermál og á að tvöfalda flutningsgetu á jarðgasi til Evrópu frá Rússlandi. Evrópsk og rússnesk fyrirtæki standa að verkefninu í sameiningu.

Refsiaðgerðir vegna Nord Stream engin nýlunda

Á síðasta ári samþykkti Donald Trump refsiaðgerðir gegn þeim fyrirtækjum sem unnið hafa við leiðsluna. Ástæðan var ótti við aukin rússnesk áhrif í Evrópu. Fyrir um mánuði kynnti Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna að gripið yrði til refsiaðgerða gegn þeim þýsku fyrirtækjum sem lagt hafa fé í verkefnið.

Þýskum stjórnvöldum finnst þetta vera óeðlileg íhlutun Bandaríkjamanna í þýsk innanríkismál. Þau telja að með Nord Stream 2 verði öruggt og hreint flæði orku tryggt enda sé á stefnuskrá Þjóðverja að draga úr notkun kola og kjarnorku.

Frá Úkraínu, Póllandi og Eystrasaltsríkjunum berast á hinn bóginn þungar áhyggjur af auknum áhrifum Rússa á orkuflæði til Evrópu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV