Meira en þrjú þúsund manns voru handtekin og tugir eru særðir eftir harkalegar aðgerðir lögreglu við að tvístra hópum mótmælenda í gær. Hvítrússnesk stjórnvöld segja í yfirlýsingu að um 1.000 hafi verið handtekin í Minsk og restin annars staðar í landinu.
„Við höfum miklar efasemdir um framkvæmd kosninganna sem, frá okkar sjónarhorni, eiga við rök að styðjast,“ hefur AFP fréttastofan eftir Steffen Seibert, talsmanni þýsku ríkisstjórnarinnar, á blaðamannafundi í dag. Hann sagði lágmarkskröfur um lýðræðislegar kosningar ekki hafa verið uppfylltar. Það væri óásættanlegt.
Harkalegar aðgerðir lögreglu
Lögregluyfirvöld segja mótmælendur hafa ögrað löggæslumönnum, kveikt elda og blys, reist hindranir á götum og kastað gangstéttarhellum að lögreglumönnum. 50 borgar og 39 lögreglumenn eru slasaðir eftir átökin.
Lögregla beitti leiftursprengjum, gúmmíkúlum og táragasi til þess að kveða mótmælin niður. Mótmælendur krefjast þess að Svetlana Tsíkhanovskaja verði lýstur sigurvegari kosninganna en ekki Alexander Lúkasjenkó sem var endurkjörinn. Hann hlaut um 80 prósent atkvæða samkvæmt opinberum niðurstöðum. Mótmælendur telja hins vegar að brögð hafi verið í tafli.
Áhyggjur nágranna
Nágrannaríki og helstu leiðtogar Evrópusambandsins hafa lýst áhyggjum sínum á ástandinu í Hvíta-Rússlandi. Evrópusambandið bíður eftir áreiðanlegri upplýsingum frá Hvíta-Rússlandi. Þar er netsamband stopult og óreiða einkennir upplýsingar þaðan.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hvatti hvítrússnesk stjórnvöld í dag til að birta rétt kosningaúrslit. Lúkasjenkó hefur þegar lýst yfir sigri í kosningunum. „Grundvallarréttindi í Hvíta-Rússlandi verður að virða,“ sagði von der Leyen á Twitter.