Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telur að fólk fái meira af veirunni í sig en áður

10.08.2020 - 22:30
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Aukin nánd í samfélaginu þegar fólk slakaði á persónubundnum sóttvörnum hefur valdið því að fólk fær meira af kórónuveirunni í sig og veikist hraðar og alvarlegar en áður, að mati yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalands

Veiran leggst nú frekar á ungt fólk en hún gerði í vor. Þrír eru á spítala, þar af tveir undir fertugu. Lengi vel í þessari seinni bylgju urðu fáir svo veikir að þeir þyrftu að leggjast inn á sjúkrahús og vangaveltur voru um hvort veiran hefði veikst frá því sem var.

Yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans telur veiruna sjálfa ekki hegða sér öðruvísi nú, þvert á móti telji hann að fólk fái nú meira af veirunni í sig en áður. „Það er alveg ljóst að veirusýkingar á borð við þessa, og kannski aðrar sýkingar líka, að alvarleiki sýkingarinnar er í réttu hlutfalli við magnið af sýkingarefninu sem þú færð í þig,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.

Ástæðan sé sú að fólk hafi undanfarið gætt verr að sér en í fyrri bylgju faraldursins og nánd milli fólks því verið meiri. „Ef þú hefur einn einstakling sem kemur inn í hóp, sem er með ríkulegt magn af veirunni í sér, og ef hann síðan gætir ekki að sér og er til dæmis í gleðskap og söng og mikilli nánd, þá smitar hann stærri skammti í næsta einstakling sem þá verður í fyrsta lagi hraðar veikur og oftast nær alvarlegar veikur.“

Már segir að það sé því sín tilgáta að þetta skýri af hverju ungt fólk sé að leggjast inn á spitala nú.
 

 

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV