Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir komur ferðamanna margfalda líkur á faraldri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ljóst er að smitið sem dreifist nú um samfélagið barst hingað yfir landamærin, og sennilega með aðeins einum farþega. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við fréttastofu.

Kári segir að eftir því sem fleiri ferðamenn komi til landsins aukist líkurnar á því að veiran breiðist út hér á landi. Þá segir hann að að hans mati væri skynsamlegast að allir færu í sóttkví við komuna til landsins þar til tekist hefði að ná böndum á faraldrinum. Kári lét skoðun sína í ljós í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í gær í kjölfar háværrar umræðu um sóttvarnaraðgerðir á landamærum síðustu daga.

Kári segir að ekki sé vitað hvaðan smitið barst hingað né heldur hvort ferðamaðurinn hafi verið erlendur eða innlendur, en sennilega hafi það borist hingað með einum farþega. Þetta er í takt við það sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í vikunni, að smitin hér innanlands mætti flest rekja til ferðamanna. 

Líkurnar á nýjum faraldri aukast með komum ferðamanna sem ekki fara í sóttkví 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar,- og nýsköpunarráðherra sagði í viðtali á RÚV á laugardag að áhættan af komum ferðamanna væri „ásættanleg“ vegna þess hversu fáir ferðamenn væru smitaðir.  

Kári segir ekkert benda til annars en að líkurnar á nýjum faraldri aukist með fjölda þeirra sem koma inn í landið. „Þetta smit sem nú hefur dreifst sýnir að þótt líkurnar séu litlar, þá eru þær nógu miklar,“ segir hann. 

„Og ástæðan fyrir því að mér finnst við verða að endurhugsa hvernig við tökumst á við þetta er að þó skimunin á landamærunum gangi vel og sé skilvirk er ljóst að það er nóg að einn komi hingað til lands með veiruna til þess að faraldur blossi upp að nýju,“ segir Kári.  

Stöndum frammi fyrir mikilvægu vali 

Kári segir ráðamenn standa frammi fyrir mikilvægu vali um framtíð þjóðarinnar. „Valið er milli þess að annars vegar þola faraldra af þessari gerð, hvern á fætur öðrum og koma þannig í veg fyrir að við getum lifað eðlilegu menningarlífi og að skólarnir starfi á eðlilegan hátt. Ef við viljum þola það þá getum við haldið áfram á þeirri braut sem við erum núna. Hins vegar getum við valið að setja skýrari reglur um komur fólks til landsins með því að fólk fari í skimun, sóttkví og aðra skimun við komuna til landsins. Þá getum við lifað því lífi sem við flest viljum lifa“. 

„Þetta er bara val og fyrir mér er valið tiltölulega einfalt,“ segir Kári. „Grundvallaratriðið hlýtur að vera að geta komið börnum í skóla og leyft þeim að vera í félagsskap vina og bekkjarfélaga.“

Lífsskoðun ráðherra góðra gjalda verð en önnur en hans 

Þórdís Kolbrún skrifaði grein í Morgunblaðið á laugardag undir yfirskriftinni „Þetta veltur á okkur“. Þar hélt hún því fram að landsmenn þyrftu að „setja sig í þann gír að „lifa með veirunni““ og að við þyrftum á allri okkar þolinmæði, þrautseigju og árvekni að halda.  

Aðspurður um sjónarmið ráðherrans segir Kári ljóst að það sé ein leið til að líta á þetta. „Hún vill meina að við getum lifað með því að setja hegðun okkar alls konar skorður. Það er hennar mat og það er annað en mitt,“ segir hann. 

Hann segir ákvörðunina ekki lengur tæknilega heldur þurfi að meta hvers konar lífi við viljum lifa, til dæmis hvernig við metum lífsgæðin sem fylgja því að lifa ekki í stöðugum ótta við faraldur.  

Mat ráðherrans á skjön við mat hagfræðinga

Með ummælum sínum brást Þórdís Kolbrún við skrifum og ummælum Gylfa Zoëga, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, um að ábatinn af því að slaka á ferðatakmörkunum hefði verið ofmetinn og kostaðurinn vanmetinn. Hann færði rök fyrir því að það hefðu verið mistök að rýmka ferðatakmarkanir vegna þeirra miklu fórna sem samfélagið færir með því að taka áhættuna sem fylgir því að annar faraldur blossi hér upp. Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, lýsti svipuðu mati sínu í grein á Kjarnanum.

Gylfi svaraði ráðherranum í grein í Morgunblaðinu í morgun þar sem hann ítrekaði mál sitt og skrifaði: „Þegar þjóðfélag okkar stendur frammi fyrir einhverju alvarlegasta vandamáli lýðveldistímans þá er mikilvægt að leyfa mismunandi sjónarmiðum að koma fram og ráðamenn þurfa að sýna ábyrgð með því að bregðast við umræðu í samræmi við embætti þeirra og ábyrgð.“