Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Saltvatn finnst á dvergnum Ceresi

epa04650463 A handout photo provided by National Aeronautics and Space Administration (NASA) on 06 March 2015 of dwarf planet 'Ceres' taken by NASA's Dawn spacecraft on 01 March which, according to a Nasa press release, has become the first
Dvergreikistjarnan Seres. Mynd: EPA - NASA
Löngum töldu stjarnvísindamenn að dvergreikistjarnan Ceres væri aðeins köld og hrjóstrug klettaveröld. Nú hefur heldur betur annað komið á daginn. Undir kaldranalegu yfirborðinu fannst hafsjór af saltvatni.

Ceres er stærstur smástirna í beltinu milli Mars og Júpíter og býr yfir nógu sterku þyngdarafli til að bandaríska könnunarfarið Dawn komst á sporbaug um hann.

Þaðan var dvergreikistjarnan rannsökuð í hörgul, úr 35 kílómetra fjarlægð. Hópur bandarískra og evrópskra vísindamanna hefur rannsakað myndirnar, en sjónum var einkum beint að Occator-gígnum sem myndaðist fyrir um tuttugu milljónum ára.

Niðurstaðan er sú að gríðarmikið magn saltvatns er að finna undir yfirborði Ceresar.

Niðurstöður rannsóknanna, sem voru birtar samtímis í þremur vísindatímaritum, Nature Astronomy, Nature Geoscience og Nature Communications, leiddu ýmislegt fleira spennandi í ljós.

Innrauðar ljósmyndir sýna vatnað salt (NaCl.2H2O), sem samanstendur af efnunum natríum, klóríði og tveimur vatnssameindum. Vatnað salt er algengt í hafís en hefur hingað til aldrei fundist utan jarðarinnar.

Þetta þykir vísindamönnum vera sterk vísbending um að höf hafi forðum flætt um Ceres. Uppgötvunin telst jafnframt afar mikilvæg fyrir geimvísindin því efnasamböndin á Ceres eru grundvöllur lífs.

Einnig má búast við að uppgötvunin verði vatn á myllu þeirra sem vilja halda út í sólkerfið eftir vatni.