
Ríkisstjórn Líbanons fer frá völdum
Forsætisráðherrannn tilkynnti um afsögnina í sjónvarpsávarpi í dag. Afsögnin kemur tæpri viku eftir að gríðarmikil sprenging olli miklu eignatjóni í Beirút, varð um 200 manns að bana og slasaði þúsundir.
Segist hlýða kalli fólksins
Diab kvaðst vera að hlýða kalli fólksins í landinu auk þess sem áralöng geymsla þess mikla magns ammoníum nítrats, sem olli sprengingunni, væri glæpsamleg birtingarmynd landlægrar spillingar. Þeir sem bæru ábyrgð skyldu verða dregnir til ábyrgðar, sagði forsætisráðherrann í ávarpi sínu í dag.
Undanfarna daga hafa fjórir ráðherrar þegar sagt skilið við ríkisstjórnina, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra sögðu af sér í morgun. Margir þingmenn höfðu jafnframt lýst því yfir að traust þeirra til stjórnarinnar væri þorrið. Segði stjórnin ekki af sér myndi þingið lýsa vantrausti á hana. Hið minnst níu þingmenn hafa þegar sagt af sér .
Hassan Diab settist í stól forsætisráðherra Líbanon í desember síðastliðnum, tveimur mánuðum eftir að fyrri ríkisstjórn var felld eftir harða mótmælahrinu í landinu.
Líbanon hefur glímt við alvarlega efnahagskreppu um langa hríð, ríkisstjórnin hefur legið undir ámæli fyrir spillingu og óstjórn. Sprengingin á hafnarsvæðinu í Beirút kveikti neista mikillar reiði og harðra mótmæla sem hefur orðið til þess að ríkisstjórnin fer nú frá völdum.