Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Opin“ landamæri mikil fórn fyrir lítinn ábata

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
„Það er mikil áhætta fyrir lítinn ávinning að hleypa fólki inn í landið,“ segir Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, um fyrirkomulagið við skimun á landamærunum þar sem ekki er gerð krafa um sóttkví. „Margir eru undanþegnir skimun og aðrir fá hana á verði sem ekki tekur mið af áhættunni sem ferðir yfir landamærin hafa í för með sér,“ segir Tinna. 

Hvati til að taka of mikla áhættu 

Fréttastofa ræddi við Tinnu Laufeyju fyrr í sumar, um það leyti sem ferðatakmörkunum var aflétt, um gjaldið sem farþegum er gert að greiða fyrir skimun við komuna til landsins. Þá benti hún á að við ákvörðun um gjaldtökuna þyrftu stjórnvöld að reikna með virði áhættunnar á því að smit bærist til landsins. Ef farþegar bæru engan kostnað vegna áhættunnar yrði til hvati í kerfinu til að fólk tæki meiri áhættu heldur en hagkvæmt er.  

Tinna segir ljóst að hvatinn til of mikillar áhættu sé til staðar. „Nú er sýnataka á landamærum niðurgreidd, farþegar bera ekki einu sinni allan kostnaðinn af skimuninni sjálfri, og hvað þá áhættunni,“ segir hún.  

Á sínum tíma stóð til að gjaldið yrði 15.000 krónur fyrir hvern farþega. Tinna sagði augljóst að það væri of lágt, þótt erfitt væri að meta virði áhættunnar á þeim tíma. Fljótt var svo ákveðið að gjaldið yrði lækkað í 11.000 krónur og að ferðalangar fengju afslátt af því gjaldi ef þeir greiddu fyrir fram. 

Áhættan jafnvel enn kostnaðarsamari en talið var í fyrstu 

Tinna Laufey, sem er sérfræðingur í heilsuhagfræði, bendir á að með aðferðum hagfræðinnar megi slá mati á kostnaðinn sem áhættan felur í sér fyrir samfélagið. Hún nefnir til dæmis hvernig hægt er að meta þann kostnað sem hefur fylgt því að fólk fari í sóttkví og einangrun frá því að ferðatakmarkanir voru rýmkaðar þann 15. júní. Þá er hægt að rannsaka og meta hversu mikið íbúar hér á landi væru tilbúnir að greiða fyrir það eitt að búa í samfélagi sem gengur sinn vanagang frekar en í samfélagi með takmörkunum vegna faraldurs. Þetta eru þó bara tveir af fjölmörgum kostnaðarliðum sem tengjast opnun landamæra. Við þá bætast svo kostnaðarliðir á við virði heilsu, beinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu og fleira.

„Við hagfræðingar getum auðvitað uppfært útreikninga okkar smám saman eftir því sem á líður og betri upplýsingar fást, rétt eins og sóttvarnaryfirvöld eru að læra af þeim gögnum sem fram koma eftir því sem tíminn líður. Þegar skimuninni var komið á var það eitt ljóst að fyrirkomulag skimunarinnar eins og hún var sett upp myndi hvetja til meiri áhættu en hagkvæmt var. Virði þeirrar áhættu var þó ansi óljóst,” segir Tinna.   

Tinna segir að eftir því sem tíminn leið hafi orðið ljóst að kostnaðurinn af áhættunni sé svo mikill að það borgi sig að viðhafa mjög strangar reglur um ferðir fólks yfir landamærin og þær sóttvarnir sem hver og einn farþegi þarf að hlíta. 

Samkvæmt hvaða útreikningum er áhættan „ásættanleg“? 

Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði í viðtali á RÚV á laugardag að í hennar augum væri áhættan sem stafaði af komum fólks til landsins „ásættanleg“.

Aðspurð um ummæli ráðherrans segir Tinna Laufey þau fyrst og fremst vekja forvitni sína um hvernig ráðherra eða stjórnvöld meti áhættuna: „Ef það liggur einhver greining þarna að baki þá finnst mér forvitnilegt að reyna að skilja af hverju hennar niðurstöður stangast svo mikið á við mínar. Ég hef verið að reikna út virði þessarar áhættu með mjög hefðbundnum aðferðum hagfræðinnar og fæ út mjög háar tölur. Jafnvel miðað við íhaldssamasta mat mitt, þá er kostnaður vegna áhættunnar mjög mikill. Ég spyr mig fyrst og fremst: Hvað gerir það að verkum að mat okkar stangast svona mikið á?,“ segir hún. 

Tinna Laufey tekur undir með kollega sínum Gylfa Zoëga, sem fréttastofa ræddi við á föstudag, og segir að síðustu vikur hafi leitt í ljós þá miklu fórn sem samfélagið færir vegna áhættunnar af því að kórónuveiran berist hingað með fólki sem fer yfir landamærin. 

Tinna Laufey bendir á að það sé sjaldgæft að hagfræðingar mæli með slíkum hindrunum. „Hagfræðilega er yfirleitt hagkvæmast að hafa sem minnstar hömlur á fólksflutningum, rétt eins og öðrum viðskiptum yfir landamæri, en vegna kostnaðarins við þá áhættu sem okkur stafar af þessum faraldri gildir það ekki núna – reikningsdæmið lítur einfaldlega öðruvísi út í þetta skiptið,“ segir hún. „Það er því tæplega hægt að saka okkur um að bera ekkert skynbragð á mikilvægi samskipta þjóða á milli.“ 

Þórólfur og Kári segja stjórnvöld hafa val

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að stjórnvöld hefðu val milli annars vegar harðra aðgerða á landamærum og þá minni takmarkana innanlands, og hins vegar að slaka á aðgerðum á landamærum og herða þær þá innanlands.

Á sömu nótum sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ráðamenn stæðu frammi fyrir mikilvægu vali um framtíð þjóðarinnar. „Valið er milli þess að annars vegar þola faraldra af þessari gerð, hvern á fætur öðrum og koma þannig í veg fyrir að við getum lifað eðlilegu menningarlífi og að skólarnir starfi á eðlilegan hátt. Ef við viljum þola það þá getum við haldið áfram á þeirri braut sem við erum núna. Hins vegar getum við valið að setja skýrari reglur um komur fólks til landsins með því að fólk fari í skimun, sóttkví og aðra skimun við komuna til landsins. Þá getum við lifað því lífi sem við flest viljum lifa,“ sagði Kári. „Þetta er bara val og fyrir mér er valið tiltölulega einfalt. Grundvallaratriðið hlýtur að vera að geta komið börnum í skóla og leyft þeim að vera í félagsskap vina og bekkjarfélaga,“ sagði hann.