Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Móðir og faðir skilgreind upp á nýtt

Mynd með færslu
 Mynd: Wayne Evans - Pexels
Lagalegum skilgreiningum á hugtökunum móðir og faðir verður breytt, verði frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á kynskráningu foreldra að lögum. Foreldrisregla, hliðstætt faðernisreglunni, verður lögfest og hugtakið foreldri notað um foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu

Með frumvarpinu sem nú er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda bætast ný ákvæði, sem mæla fyrir um foreldrastöðu transfólks, við barnalög. Tilgangur þeirra er að tryggja réttindi foreldra með breytta kynskráningu og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum.

Í frumvarpinu segir að íslensk lög hafi ekki gert það að skilyrði fyrir breytingu á kynskráningu trans fólks að það gangist undir ófrjósemisaðgerð eins og gert hafi verið í ýmsum löndum. Því sé vel hugsanlegt að transmaður gangi með og ali barn og að transkona geti barn. 

Sú breyting verður að karlmaður, sem elur barn eftir breytingu á kynskráningu sinni, telst faðir þess. Þetta þýðir að sá möguleiki verður fyrir hendi að barn eigi tvo feður. Á sama hátt er lögð til breytt skilgreining hugtaksins móðir í barnalögum þannig að það eigi við um kvenkyns foreldri en ekki einungis um konu sem elur barn. Breytingin hefur í för með sér að barn getur átt tvær mæður, þ.e. ef móðirin sem elur það er í hjúskap eða sambúð með annarri konu.

Einstaklingur með hlutlausa kynskráningu sem elur barn telst foreldri þess.

Í frumvarpinu segir að vegna breyttrar merkingar hugtaksins móðir verði þá nauðsynlegt að breyta ákvæðum barnalaga og annarra laga sem mæla fyrir um sérstök réttindi til handa móður vegna meðgöngu og barnsburðar og þau muni einnig gilda um þann sem er faðir eða foreldri.

Einnig er lagt til í frumvarpinu að hugtakið foreldri í þrengri merkingu verði notað um þá foreldra sem hafa hlutlausa kynskráningu, enda sé orðið ekki kyngreinandi.

Með frumvarpinu er lagt til að foreldrisregla gildi um ákvörðun foreldrisstöðu foreldris með breytta kynskráningu sem er í hjúskap eða skráðri sambúð með því foreldri sem ól barnið. Í drögunum er þessi regla kölluð parens est- regla og er sögð sambærileg pater est-reglunni, sem felur í sér að börn sem fæðast í hjúskap foreldra verða sjálfkrafa börn eiginmannsins. Tekið er fram að parens est-reglan gildi ekki þegar hjón eða sambúðarfólk eignast barn sem getið er við tæknifrjóvgun.

Ef parens est-reglan á ekki við verður foreldrisstaða foreldris með breytta kynskráningu, þ.e. þess sem ekki ól barnið, ákvörðuð með foreldrisviðurkenningu, sem er sambærileg faðernisviðurkenningu.