Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Loka fyrir heita vatnið í 30 tíma í næstu viku

Mynd með færslu
 Mynd: Veitur
Skrúfað verður fyrir heitavatnslagnir á afmörkuðum svæðum á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt þriðjudagsins í næstu viku og ekki opnað fyrir þær aftur fyrr en miðvikudagsmorguninn eftir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

Gera má ráð fyrir algjöru heitavatnsleysi á meðan lokuninni stendur á eftirtöldum svæðum:

  • Allur Hafnarfjörður,
  • Urriðaholt, Suðurhraun og Lundir í Garðabæ
  • Nær allar efri byggðir Kópavogs
  • Norðlingaholt í Reykjavík
Mynd með færslu

Heita vatnið verður tekið af klukkan 2 aðfaranótt þriðjudagsins 18. ágúst og því hleypt aftur á klukkan 9 miðvikudagsmorguninn 19. ágúst.

Heita vatnið er tekið af því verið er að fjölga heimilum sem fá heitt vatn frá virkjunum á Hellisheiði og á Nesjavöllum. Til þess að tengja heimili inn á æðar frá þessum virkjunum þarf að stöðva rennsli og tæma eina af megin flutningsleiðum heita vatnsins á höfuðborgarsvæðinu.

Heitavatnsnotkun hefur aukist á síðustu árum meðal annars vegna fjölgunar íbúa og þéttingu byggðar. Álag á jarðhitageyminn sem fæðir borholur á lághitasvæðinum í Reykjavík og Mosfellsbæ hefur aukist við þessa fjölgun íbúa og við því verður að bregðast.

Með því að tengja heimilin við virkjanir á Hellisheiði og Nesjavöllum er hægt að framlengja líf lághitasvæðisins til langrar framtíðar, segir í tilkynningu Veitna.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV