Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögreglan sér of mikið af kossum og knúsum á djamminu

10.08.2020 - 12:09
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Santos - RÚV
Fleiri veitingamenn hafa fengið orð í eyra frá lögreglu vegna brota á sóttvarnareglum, en þær voru sums staðar þverbrotnar í miðborg Reykjavíkur um helgina. Á Norðurlandi gerði lögregla einnig athugasemdir, bæði á veitinga- og skemmtistöðum en einnig í sundlaugum.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær boðaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að beita þyrfti sektum og jafnvel tímabundnum lokunum á veitinga- og skemmtistöðum sem ekki virða reglur um fjölda- og fjarlægðartakmarkanir.

Af 24 stöðum í Reykjavík sem lögreglan kannaði á laugardagskvöld var ástandið óviðunandi á fimmtán þeirra og í gærkvöld var eigendum tveggja veitingastaða í miðborginni gert að færa borð í sundur og ítreka reglur fyrir gestum.

Á Norðurlandi þurfti einnig að grípa inn í um helgina og gera athugasemdir, að sögn Jóhannesar Sigfússonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.

„Svona almennt má segja að þetta hafi komið þokkalega út en þó er misbrestur. Það er þá fyrst og fremst þegar líður á kvöldið og fólk er komið í glas og svona, að þá virðist nú tveggja metra reglan eiga mjög undir högg að sækja hjá fólki. Maður sér of mikið af kossum og knúsi,“ segir Jóhannes.

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Jóhannes Sigfússon aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Þarf að skerpa á reglum í sundlaugum

Hann undirstrikar að sektarheimildir lögreglu gildi ekki einungis um höfuðborgarsvæðið. En gæti þurft að grípa til þess að sekta, til að mynda á Akureyri miðað við ástandið um helgina?

„Ég vona ekki en við erum í startholunum með það líka og það gilda sömu reglur hér og í höfuðborginni.“

Veðurspáin er góð fyrir Norðurland næstu daga og lögreglan verður með virkt eftirlit í landshlutanum. Ekki hefur þurft að grípa inn í vegna brota á sóttvarnareglum á tjaldstæðum, en sundlaugar eru annað mál.

„Já við höfum fengið ábendingar um að það væri ekki verið að virða þessar reglur nægilega vel eins og í búningsklefum og sturtum og ofan í pottunum jafnvel. Það þarf greinilega að skerpa aðeins á hlutum þar líka,“ segir Jóhannes Sigfússon, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra.