Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kerlingarfjöll friðlýst 

10.08.2020 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Kerlingarfjöll voru friðlýst í dag. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði í Kerlingarfjöllum eftir að Svandís Svavarsdóttir, settur umhverfis- og auðlindaráðherra í málinu, undirritaði friðlýsinguna.  

„Við erum mjög glöð á þessum degi, enda hefur með friðlýsingu svæðisins verið stigið tímamótaskref, landi og þjóð til heilla,“ er haft eftir Hildi Vésteinsdóttur, teymisstjóra friðlýsinga og áætlana hjá Umhverfisstofnun, í tilkynningu frá stofnuninni. 

Áform um friðlýsingu hófust árið 2016 eftir að sveitarfélagið Hrunamannahreppur hafði frumkvæði að samstarfi við undirbúning hennar. Auk þess komu Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Kerlingarfjallavinir að undirbúningnum. Svæðið sem var friðlýst, Kerlingarfjöll og nágrenni, er 344 ferkílómetrar að stærð.  

Í tilkynningunni er svæðinu lýst á eftirfarandi hátt: 

Kerlingarfjöll draga nafn sitt af móbergsdranga sem rís upp úr líparítskriðu sunnan í Tindi í vestanverðum fjöllunum. Fjallaklasinn samanstendur af litríkum líparíttindum og stórbrotnu landslagi. Svæðið er megineldstöð og eitt af öflugri háhitasvæðum landsins. Í Hveradölum, einu helsta aðdráttarafli Kerlingarfjalla, hvína og sjóða fjölbreyttir og litríkir gufu- og leirhverir. Í kringum marga þeirra vex sérstæður og viðkvæmur gróður. Á svæðinu eru fjölmargar gönguleiðir, m.a. að jarðhitasvæðunum 

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun