Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Íbúar eru náttúrulega bara brjálaðir“

10.08.2020 - 13:35
Myndir teknar með dróna.
Búðardalur í Dalabyggð Mynd: RÚV - Jóhannes Jónsson
Mývetningar og íbúar í Dalabyggð eru reiðir vegna verðhækkana í verslunum Samkaupa í sinni heimabyggð. Forstjóri Samkaupa segist skilja reiðina en segir reksturinn þurfa að vera sjálfbæran. Verðhækkanir séu í samræmi við boðaðar hækkanir frá því í vor.

Í vor breytti Samkaup Kjörbúðum sínum í Mývatnssveit og Búðardal í Krambúðir og boðaðar voru verðhækkanir upp á 7,7% að meðaltali.

Íbúar reiðir og sniðganga Samkaup

„Íbúar eru náttúrulega bara brjálaðir yfir því hvernig verð hefur hækkað svakalega hér miðað við gefin loforð. Ég hef verið að skoða þetta undanfarið. Þá sýnist mér verðhækkunin vera svona kannski 25% eða nær því allavega“ segir Skúli Guðbjörnsson, formaður byggðarráðs í Dalabyggð. 

Hann segir íbúa sniðganga Krambúðina og næsta matvöruverslun sé í Borgarnesi. Þar fari fólk beint í Bónus því Samkaup eigi Nettó. Skúli segir mikið af ferðamönnum hafa komið í Búðardal í sumar svo verslunin hafi sennilega komið vel út. Hann telur þó ljóst að fyrirtækið muni átta sig á að þetta hafi verið vitlaus ákvörðun hjá þeim í haust, þegar þeir fari að treysta á verslun heimamanna. „Við náttúrulega viljum hafa búð hérna, en það er ekki hægt á svona láglaunasvæði að ætla að fara að féfletta fólk eins og ég segi bara,“ segir Skúli. 

Byggðarráð hefur óskað útskýringa

Byggðarráð Dalabyggðar hefur sent erindi á Samkaup og óskað eftir útskýringum á þessum miklu hækkunum. Skúli segir lítið um svör en það hafi verið boðað til fundar nú í ágúst. Svipaða sögu er að segja úr Mývatnssveit. Íbúar þar segja mjólk hafa hækkað um tæp 18% og vanilluskyr um 16%. Mývetningar afhentu Ómari Valdimarssyni undirskriftalista nú fyrir helgi þar sem skorað er á Samkaup að breyta búðinni aftur í Kjörbúð. 

Sjá einnig: Mývetningar mótmæla Krambúðinni

Mývetningar afhenda Ómari Valdimarssyni undirskriftarlista þess efnis að þeir vilja fá kjörbúiðina aftur
Íbúar í Mývatnssveit afhentu Ómari undirskriftarlista nú fyrir helgi

Ekki rétt mynd af verðbreytingum

Ómar Valdimarsson forstjóri Samkaupa segir meginástæðu breytinganna þá að báðar búðirnar séu háðar viðskiptum ferðamanna og rekstrarforsendur hafi gjörbreyst í vor. Þau verðdæmi sem hafi verið tekin gefi ekki rétta mynd af verðbreytingum og hækkunin sé í samræmi við þá sem boðuð var.

Reksturinn þurfi að vera sjálfbær

Ómari finnst merkilegt að fólk ætli að sniðganga verslanir Samkaupa með því að versla við aðra. Samkaup haldi allavega úti rekstri og búi til störf í byggðarlaginu og það sé merkileg nálgun að ætla að refsa fyrirtækinu fyrir það. Hann segist skilja reiðina en reksturinn þurfi að vera sjálfbær. Spurður hvort það komi til greina að breyta búðum aftur í Kjörbúðir segir hann þurfa að skoða hvernig þróunin verði áfram, íslenskir ferðamenn hafi ekki náð að bæta upp viðskipti þeirra erlendu ferðamanna sem ekki komu í sumar. 

Aðgerðir um land allt

Samkaup sendi í dag frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um Krambúðina í Reykjahlíð í Mývatnssveit. Þar segir að ráðist hafi verið í margs konar aðgerðir um allt land í vor vegna faraldursins, ásamt að breyta rekstrarformi á búðunum í Reykjahlíð og Búðardal var afgreiðslutíma breytt og aðhalds gætt í rekstri. 

Þar segir að verð á markaði sé síbreytilegt og alltaf sé hægt að finna sveiflur í verði, bæði til hækkunar og lækkunar. Ýmsar vörur hafi hækkað í verði en aðrar lækkað, eins og Smjörvi um tæp 14% og Flórídana appelsínusafi um 18%. Frá áramótum hafi birgjar tilkynnt um 200 verðhækkanir, frá 2%-10% og Samkaup hafi ekki hækkað vöruverð í verslunum sínum síðustu 12 mánuði umfram hækkanir hjá birgjum.

Samfélagsleg ábyrgð að halda uppi rekstri og tryggja störf

Mývetningar hafa sagt að breytingin brjóti í raun í bága við stefnu fyrirtækisins sem segir að fyrirtækið leggi áherslu á samfélagslega ábyrgð í allri starfsemi. Í tilkynningunni frá Samkaup segir að fyrirtækið líti svo á að samfélagsleg ábyrgð þess snúi meðal annars að því að halda úti verslun um allt land og tryggja störf. Í Krambúðinni í Reykjahlíð starfa 12 manns í sumar.