Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Finnar vilja fangelsa ferðamenn sem virða ekki tilmæli

10.08.2020 - 22:06
epa08060232 Finland's new ministers (L-R) Li Andersson Minister of Education, Maria Ohisalo Minister of the Interior, Prime Minister Sanna Marin, Katri Kulmuni Minister of Finance and Thomas Blomqvist Minister for Nordic Cooperation and Equality speak at press conference in Helsinki, Finland, 10 December 2019.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
Fimm ráðherrar í ríkisstjórn Sönnu Marin, frá vinstri: Li Andersson, menntamálaráðherra, Maria Ohisalo, innanríkisráðherra, Sanna Marin, forsætisráðherra, Katri Kulmuni, fjármálaráðherra og Thomas Bloqvist, ráðherra jafnréttismála og norrænnar samvinnu Mynd: EBU
Ferðamenn frá hááhættusvæðum sem koma til Finnlands og fara ekki í tveggja vikna sóttkví eiga yfir höfði sér sekt eða fangelsi. Þá áskilja stjórnvöld sér rétt til að senda þá í sýnatöku fyrir COVID-19. Finnsk yfirvöld telja að fjölgun smita í landinu megi rekja til ferðamanna sem virt hafi tilmæli yfirvalda að vettugi.

Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa er þrír í Finnlandi sem er eitt það lægsta í Evrópu. Sem dæmi má nefna að samkvæmt covid.is er þessi tala rúmlega 8 sinnum hærri hér á landi. 

Finnar hafa farið þá leið að treysta ferðamönnum til að fara sjálfir í tveggja vikna sóttkví. Nú telja yfirvöld að sú aðferð dugi ekki lengur. Kristu Kiuru, heilbrigðisráðherra Finnlands, tilkynnti í dag að ferðamenn sem færu ekki eftir þessum reglum yrðu annað hvort sektaðir eða fangelsaðir. Þá kæmi til greina að skikka fólk í sýnatöku, hvort sem það vildi það eða ekki.

135 ný smit hafa verið staðfest í Finnlandi síðustu sjö daga og Kiuru sagði við fréttamenn að þetta hefði komið stjórnvöldum í opna skjöldu. 

Heilbrigðisyfirvöld skella skuldinni á fólk sem kemur frá útlöndum en ákvörðunin um harðari aðgerðir var tekin eftir að ferðamenn frá Austur-Evrópu og Balkanskaganum komu til Finnlands og reyndust ýmist vera sýktir af kórónuveirunni eða neituðu að fara í sýnatöku.

Rétt er að árétta að þessar hertur reglur gilda fyrir ferðamenn sem koma frá hááhættusvæðum. Ísland er ekki þar á meðal.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV