Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Eru komin með plan A,B,C,D og E

10.08.2020 - 09:50
Mynd: Hulda Geirsdóttir / RÚV
Enn er óvissa um hvernig skólahaldi í framhaldsskólum verður háttað í haust. Magnús Þorkelsson, skólameistari Flensborgarskólans, segir mikilvægt að huga sérstaklega að nýnemum. Ekki liggi fyrir hvort brotthvarf frá námi hafi aukist vegna faraldursins.

Flestir framhaldsskólar verða settir í næstu viku en kennslufyrirkomulag liggur enn ekki fyrir. Magnús var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og sagði margar áætlanir á teikniborðinu hjá starfsfólki skólans.

„Þau eru að tala um að þau séu komin með plan A,B,C,D og E. Og það er bara spurning hvert þeirra verður notað því okkur finnst skipta mestu máli að fá krakkana inn í húsið., sérstaklega höfum við áhyggjur af nýnemunum. Nýnemarnir  verða að koma inn, við verðum að kenna þeim á kerfin og ýmislegt í sambandi við verklag,“ segir Magnús.

Framhaldsskólum var gert að taka upp fjarkennslu síðasta vor eftir að takmarkanir voru settar á fjölda fólks sem mátti koma saman.  Magnús segir að það fyrirkomulag hafi gengið vonum framar.  „Útkoman hjá okkur eftir önnina er ekkert verri en eftir venjulega önn, hún er að mörgu leyti betri og margir krakkanna töluðu um að það væri gott að vera í svona námi, þannig að þetta kom að mörgu leyti ótrúlega vel út. En skóli getur ekki verið bara fjarnám. Þú tekur ekki nemendur upp í framhaldsskóla beint úr grunnskóla í fjarnám, það  bara  gengur ekki upp.“

Magnús segir fátt benda til þess að fjarnám stuðli að auknu brotthvarfi frá námi. Margt annað spili þar inn í. „Það eru svo fjöldamargir þættir sem þarna hafa áhrif. Í raun og veru skiptir kannski mestu máli að vera með framhaldsskólakerfi sem í heildina tekur á öllum mögulegum þjónustumöguleikum. “