Einstaklingur á tvítugsaldri lagður inn vegna COVID-19

10.08.2020 - 14:15
Mynd: Almannavarnir / Ljósmynd
Einstaklingur á tvítugsaldri var lagður inn á Landspítalann vegna kórónuveirunnar í gær. Þrír eru nú inniliggjandi, þar af einn í öndunarvél. Til skoðunar er að sveigja tveggja metra regluna við ákveðin skilyrði, og leyfa íþróttir með snertingu á ný.

Tveir greindust með virkt smit innanlands síðasta sólarhringinn, en báðir greindust við skimun Íslenskrar erfðagreiningar og voru í sóttkví. Um er að ræða sömu veiru og áður, en ekki hægt að rekja öll smitin sem hefur greinst vegna þessarar tegundar sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag.

114 virk smit í samfélaginu, í öllum landshlutum. 938 í sóttkví, flestir á höfuðborgarsvæðinu. Þrír eru nú inniliggjandi á landspítalanum. Einstaklingur á tvítugsaldri var lagður inn í gær, en er ekki á gjörgæslu. Rúmlega þrítugur einstaklingur er í öndunarvél og svo einstaklingur á níræðisaldri sem ekki er á gjörgæslu.

Þórólfur segir til skoðunar að breyta tilmælum um heimskomusmitgát og hætta seinni sýnatökunni, þar sem mikið álag er á greiningum vegna þess.

Hugmynd um eins metra reglu í skólum

Þórólfur vinnur nú að nýju minnisblaði til heilbrigðisráðherra. Í því verður velt upp möguleikum varðandi sýnatöku á landamærum til lengri tíma, og tillögur hvernig skerpa á reglum innanlands. Til skoðunar er að láta eins metra reglu gilda við ákveðnar aðstæður hér, til dæmis í skólum, en tveggja metra annars staðar.

Þá sagði Þórólfur að til skoðunar væri að leyfa íþróttir með snertingu á ný, en þær eru bannaðar til 13. ágúst. Slík tilmæli kæmu fram í minnisblaðinu.

Þórólfur árétti þó að sjá þyrfti fyrir endann á þessu hópsmiti áður en hægt væri að létta almennt á takmörkunum. Hins vegar væri ekki ástæða til að herða takmarkanir frekar.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi