Dýrt spaug fyrir íslenskan nema að komast hjá sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Elín Huld

Dýrt spaug fyrir íslenskan nema að komast hjá sóttkví

10.08.2020 - 12:04
Íslenskir nemendur á leið í nám erlendis gætu þurft að fara fyrr út en áætlað var til að komast hjá sóttkví. Ísland er enn sem komið er ekki á rauðum listum víða en staðan gæti breyst hratt. Elín Huld Melsteð Jóhannesdóttir, nemi, segir að líðanin hafi verið upp og ofan, hún sé stundum stressuð og stundum spennt en stressið hafi tekið yfir undanfarið.

Elín sótti um nám í öryggisfræðum með áherslu á Mið-Austurlönd í St. Andrews háskóla í Skotlandi fyrir um ári síðan og segir það ekki hafa komið til greina að sleppa því að fara út þegar heimsfaraldurinn brast á. Þó svo námið yrði á netinu þá hafi hana samt langað að vera úti til að kynnast nýju fólki.

Stressið undanfarið hefur aðallega verið vegna þess að hún veit ekki hvort hún sé að fara út í næstu viku eða eftir fjórar vikur þar sem staðan er óviss varðandi sóttkví. Enn sem komið er eru Íslendingar ekki á lista Breta yfir fólk sem þarf að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins en það getur hins vegar breyst hratt. Elín hefur því verið að búa sig undir það versta en hún segir fá svör vera að finna og takmarkaða aðstoð vera til staðar þegar kemur að því að ákveða hvað sé sniðugast að gera.

Hún hefur velt því fyrir sér að fara út fljótlega, þremur vikum fyrir upphaf skólaársins til að sleppa við sóttkvína, en það sé hins vegar dýrt spaug þar sem hún fær ekki aðgang að stúdentagörðunum sem hún býr á fyrr en skólinn byrjar. 

„Ég hringdi í breska sendiráðið til að spyrja hvert ég ætti að fara í sóttkví ef ég þyrfti þess, hvort það væri eitthvað sérstakt hótel. En ég fékk þau svör að ég þyrfti bara að spyrja hótelið hvort ég mætti vera í sóttkví, sem er skrítið af því það vill enginn taka á móti einhverjum sem er mögulega smitaður,“ segir Elín.

Þrátt fyrir allt segist Elín ekki vera sérstaklega stressuð vegna stöðunnar á heimsfaraldrinum í Bretlandi þar sem St. Andrews, bærinn sem hún mun búa í, er á stærð við Akureyri. Stressið snúi frekar að óvissunni varðandi hvenær hún þurfi að fara út og hvernig námið muni fara fram. 

Eins og staðan er nú mun skólinn bjóða upp á nám annars vegar á netinu og hins vegar á staðnum þar sem minni hópar fá að hittast. Þeir hafa verið duglegir við að gefa væntanlegum nemendum upplýsingar um hvert þeir eigi að leita en svörin við sérstökum spurningum geta verið lengi að berast. Hún viti til dæmis ekkert hvernig árið lítur út eða stundataflan. „Ég mun örugglega ekkert vita hvernig þetta verður fyrr en ég mæti. En ég er bara spennt, þetta reddast!“

Tengdar fréttir

Íslenskir nemendur erlendis flykkjast heim