Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Dönskum ferðamönnum fjölgaði í júlí

10.08.2020 - 19:49
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Danir eru fjölmennastir í hópi þeirra erlendu ferðamanna sem komu til Íslands í júlí. Það kemur kannski á óvart að ferðamönnum frá Danmörku fjölgaði um þriðjung miðað við júlí á síðasta ári Þótt Þjóðverjar séu í öðru sæti yfir þær þjóðir sem helst sóttu Ísland í júlímánuði voru þeir rúmlega helmingi færri en á sama tíma í fyrra.

Þetta er meðal þess sem lesa má út úr talningu Ferðamálastofu og Isava fyrir júlí mánuð.

Brottfarir erlendra farþega frá Keflavíkurflugvelli voru 80 prósent færri en í júlí á síðasta ári eða 45.600. Þær voru 231 þúsund í fyrra. 

Alls hafa brottfarir erlendra ferðamanna frá Keflavík dregist saman um nærri 66 prósent síðan í byrjun árs. Apríl og maí voru verstu mánuðirnir en þá fækkaði brottförum um 99 prósent. 

Brottförum erlendra ferðamanna frá öllum löndum nema Danmörku fækkaði umtalsvert. Og danskir og þýskir ferðamenn voru 41 prósent allra erlendra farþega sem flugu frá Keflavík í júlí.

Brottförum Íslendinga fækkaði líka í júlí.  Þær voru 78 prósentum færri miðað við sama tíma á síðasta ári. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV