Aðgát brýn við vatnsföll, vöð og brattar hlíðar

10.08.2020 - 14:32
Göngubrúin yfir Krossá í Þórsmörk
Vatnsstaða er há í Krossá eins og þessi mynd sem tekin var i dag ber með sér. Mynd: Sunnefa Gunnarsdóttir
Veðurstofa Íslands beinir því til ferðafólks að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll, vöð og undir bröttum hlíðum. Auknar líkur eru á grjóthruni og skriðum og há vatnsstaða er í ám og lækjum vegna úrkomu síðasta sólarhringinn frá Vestfjörðum og allt að suðausturlandi. Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að mestar áhyggjur séu af sunnanverðu hálendinu. Þar hefur verið mikið vatnsveður í síðustu viku og vatnsstaða í ám almennt há.

Sigurdís Björg segir mjög mikilvægt að ferðalangar á sunnanverðu hálendinu hafi allan varann á. Mikið sé af óbrúuðum ám, til dæmis Krossá sem fara þarf yfir á leið í Þórsmörk. Hún segir mikilvægt að fólk skoði veðurspá vel og hugi að því að þó að það komist yfir á leið inn í Þórsmörk, svo dæmi sé tekið, þá geti hækkað í ánni yfir daginn, og því geti verið erfiðara fara til baka. Mjög brýtnt sé að vara varlega. Eftir úrkomuna síðustu daga er aðeins farið að sjatna í ám. Þó gæti hækkað aftur í vikunni, enda spáir úrkomu. 

Mjög blautt er í hlíðum á öllu vestanverðu landinu og því hætta á skriðuföllum og grjóthruni. Fólk er því beðið um að fara sérstaklega varlega í bröttum hlíðum. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi