Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Verðum að taka okkur á, segir landlæknir

Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / Ljósmynd/Almannavarnir
Aðeins þrjú smit greindust innanlands í gær. Tveir liggja nú á sjúkrahúsi. Sóttvarnalæknir segir fyrst og fremst áskorun að fá fólk til að fara að reglunum. Við verðum að taka okkur á, segir landlæknir.

Lægra hlutfall á sjúkrahúsi enn sem komið er

Alma D. Möller landlæknir segir ánægjulegt að aðeins þrír hafi greinst með smit í gær, eins og í fyrradag, og að allir þeirra hafi verið í sóttkví. 

„Við þorum samt ekkert að hrósa happi því tölurnar geta sveiflast milli daga og af því að það er helgi þá getur verið að fólk dragi eitthvað við sig að leita til heilsugæslunnar,“ segir Alma. 

Nú eru tveir á sjúkrahúsi, einn 31 árs í öndunarvél á gjörgæslu og annar á níræðisaldri, en hann er ekki á gjörgæsludeild. Alma segir það ekki koma á óvart.

„Nú eru 114 í einangrun og við þekkjum tölur nar frá því í vetur að sjö prósent þurftu sjúkrahúsinnlögn og eitt og hálft prósent þurfti gjörgæsluinnlögn. Þetta er kannski aðeins lægra hlutfall núna en sennilega erum við líka bara duglegri að greina fleiri sem eru minna veikir af því að við mælum meira.“

Við verðum að hafa úthald, sagði hún á upplýsingafundinum í dag: 

„Við verðum að taka okkur á og að sinna þessum reglum. Og það er reynt eins og hægt er að hafa reglurnar ekki harðar en þörf krefur.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Alma D. Möller.

Áskorun að fá fólk með okkur

Sóttvarnalæknir hefur líka áhyggjur af einstaklingsbundnum sóttvörnum. 

„Við getum komið með leiðbeiningar og reglur um boð og bönn og mjög harðar aðgerðir. Og það er ekki víst að fólk fari eftir því. Þannig að okkar áskorun liggur fyrst og fremst í því að fá fólk með okkur,“ segir Þórólfur Guðnason.

Hann er að undirbúa tillögur til heilbrigðisráðherra sem taka eiga gildi eftir 13. ágúst: 

„Ég hef alltaf sagt það að ég tel ástæðu til að reyna að hafa sem minnst íþyngjandi aðgerðir í gangi og með mestum árangri.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Sársaukafullt val fyrir höndum

Sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ræddu ýmis sjónarmið um framhald takmarkana á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Kári segir að þótt skimun hafi gengið vel á landamærum þá sé nokkuð ógnvekjandi að hafa ekki hugmynd um hvernig fjöldi hópa tengist, sem allir séu smitaðir af kórónuveiru með sama stökkbreytingarmynstri. 

„Viljum við búa við að þannig lagað gerist með reglulegu millibili? Það hefur áhrif á lífsstíl í landinu. Það gerir það að verkum að það verður erfitt að opna skóla eða að minnsta kosti hafa skólastarfið með því sniði sem við venjumst. Það er erfitt að halda uppi menningarlífi o.s.frv. Eða viljum við loka landinu að því marki að við hleypum ekki fólki inn öðru vísi en það fari í skimun, í fimm daga sóttkví og svo aftur í skimun. Með því værum við að fórna ferðaþjónustunni sem hefur verið mjög gjöful íslenskri þjóð. Og þetta er bara val sem menn standa frammi fyrir,“ segir Kári.

Þær ákvarðanir séu á hendi stjórnvalda, ríkisstjórnarinnar, og þær verði að taka sem fyrst. 

„Þannig að ég held að við séum í tvenns konar krísu. Við erum annars vegar í krísu sem á rætur sínar beint í þessari veiru og hins vegar í krísu sem á rætur sínar í því að við verðum að fara í gegnum mjög sársaukafullt val.“

Mynd með færslu
Kári Stefánsson segir smitin sem greinast í seinni skimun vera fleiri en búist var við. Mynd: RÚV
Kári Stefánsson.
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV