Vatnavextir með allra mesta móti síðdegis

09.08.2020 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Viktor Vilhelmsson - Aðsend mynd
Veðurstofa Íslands varar við miklum vexti í ám á Suðurlandi. Óvenju mikilli rigningu er spáð í landshlutanum í dag. Þá er að auki mikil leysing á jöklum. Í Þórsmörk verða vatnavextir með allra mesta móti síðdegis og í kvöld.

Há vatnsstaða er fyrir í mörgum ám og lækjum vegna rigningartíðar undanfarinna daga. 

Ferðafólk er beðið um að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll og vöð. Vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands ítrekar þetta í samtali við fréttastofu og bætir við að þeir sem hyggjast þvera ár síðdegis, ýmist fótgangandi eða akandi, ættu ef til vill að íhuga að breyta áformum sínum. 

Uppfært kl. 13:40:

Lögreglan á Suðurlandi hefur eftir skálavörðum í Þórsmörk að vaðið yfir Krossá sé orðið það vatnsmikið að illfært sé fyrir dráttarvél að fara þar yfir. Þá eru árnar á Fjallabaksleið syðri illfærar óbreyttum jeppabifreiðum. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi