Sögu mannkyns verður ekki komið fyrir í excelskjali

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Sögu mannkyns verður ekki komið fyrir í excelskjali

09.08.2020 - 14:05

Höfundar

Ekki býr allt einsleitt mannkyn á jörðinni við sömu skilyrði, langt í frá. Gamla grjótharða lífsbaráttan er við lýði sums staðar, þokkaleg annars staðar, ljómandi meðal enn annarra en nú er svo komið að 1 af hverjum hundrað á helming allra svonefndra auðæfa jarðarinnar, segir Ragnheiður Gyða Jónsdóttir. Hún heldur áfram að velta fyrir sér litrófi mannkyns í Tengivagni Rásar 1. Í dag víkur sögunni að mannsheilanum og því sem mótar hugsun mannkyns í vestrænum samfélögum.

Ragnheiður Gyða Jónsdóttir skrifar:

Mannsheilinn á sér langa innri og ytri þróunarsögu - öll 1400 grömmin. Þeirri stjórnstöð hafa mennirnir skipt í marga hluta, eftir aldri og starfsemi. Til að gera langa og flókna sögu einfalda og stutta; einna elsta hluta heilans, meðal annars randkerfið, kalla sumir skriðdýraheilann. Þaðan er hræðsluviðbrögðum og öðrum grunntilfinningum stjórnað. Hefur sú stjórn ekki breyst að ráði í tugi, ef ekki hundruð, milljóna ára þróunarsögu hryggdýra.

Heilabörkurinn er þróunarlega yngstur og er haft eftir fróðum manni í mannsheilanum að nýjasti hluti mannsheilans í þróunarsögunni, nýbörkurinn, sé sá hluti sem stýri hæfileikum okkar til að ná fram jafnvægi á milli frumstæðari hluta heilans, skriðdýraheilans, og þess þróaðri, spendýraheilans, og auðvitað er spendýraheilinn stærstur og umfangsmestur í spendýrum, ekki síst mönnum. Fræðimaðurinn bætir við að heilabörkurinn geri okkur að mönnum; greindin, rökhugsunin og minnið.

Aðrir prímatar séu þó langt komnir með þessa hæfileika, simpansar til dæmis, en ekki þó með sínar löngu tær þar sem við höfum hælana. Nema hvað samkenndina varðar, nú er svo komið að simpansar eru komnir allnokkuð fram úr meintum viti borna nútímanum hvað varðar samúð, samkennd og umhyggju sinna minnstu og veikustu. Svo segir að minnsta kosti hollenskur sérfræðingur í prímatafræðum. Nema að í okkur hafi samkenndarþróunin snarstaðnað í heimsvæddum dönsum okkar kringum gullkálfana.

Ekki býr allt einsleitt mannkyn á jörðinni við sömu skilyrði

Forfeður okkar og formæður hafa rekið upp stór augu þegar þau hittu óþekkta menn og ókunna, jafnvel af annarri manntegund, hræðsluviðbrögð oftar en ekki haft yfirhöndina, en yfirleitt tekið þekktum og kunnugum úr eigin hópum og nærliggjandi fagnandi. Allir þessir hafa getað barist af heift um aðgengi að vænum veiðilendum; gjöfulum ám, vötnum og höfum, bestu svæðum til jurtasöfnunar, mökum, matarbirgðum, verkfærum, vopnum og ótal mörgu öðru. Þrátt fyrir það hafa sumir lært að búa saman, aðrir ekki.

Einsleita mannkynið er enn, öllum þessum árþúsundum síðar, við sama starfa en í mun stærri, oft grófari og meintum „upplýstari“ dráttum. Ekki býr þó allt einsleitt mannkyn á jörðinni við sömu skilyrði; í frumbernsku, æsku og uppvexti, ævina á enda. Svo langt í frá, - gamla grjótharða lífsbaráttan er við lýði sums staðar, þokkaleg annars staðar, ljómandi meðal enn annarra, en nú er svo komið að 1 af hverjum hundrað, bráðum 8 milljörðum jarðarbúa, á helming allra svonefndra auðæfa jarðarinnar. Þrír og hálfur milljarður manna á hins vegar minna en 1 prósent af auðæfum þessum. Ójöfnuðurinn fer hraðvaxandi með ári hverju meðal viti bornu nútímamannanna.

Við þetta má bæta að fyrir rúmum mánuði var talið að 80 milljónir jarðarbúa væru á flótta að heiman, tvöfalt fleiri en fyrir áratug. Af ýmsum ástæðum; vegna eigin gjörða, ofsókna, styrjalda, hungurs, kúgunar, fátæktar, örbirgðar og/eða náttúrunnar sjálfrar í öllum sínum fjölmörgu birtingarmyndum. Í leit að betra lífi fyrir sig og sína, - rétt eins og formæður og forfeður fyrir ógnarlöngu.

Þessi sama tegund hefur frá örófi alda notað heila sinn og flókna starfsemi hans til sköpunar á ótal sviðum lista, leitað að tilgangi lífsins, hlutverki sínu og skyldu í heimi og samfélagi, reynt að botna í heimi og manni með ýmsum aðferðum, ekki síst trúarbrögðum, látið sig dreyma um besta mögulega heim allra heima og handanheima, skimað eftir réttlæti, aga og reglum, sjálfsögun allri, sjálfri lífshamingjunni, ákjósanlegustu stjórnskipaninni og svo mætti svo óskaplega lengi telja.

Þróun þessa gefur að líta í ótal fornleifum, fornum sögum, ljóðum, lögum, goðsögum, þjóðsögum og ævintýrum troðfullum af alls konar fornum minnum um allan okkar heim. Nútímamönnum gengur ekki alltaf vel að átta sig á innihaldinu öllu.

Mannkyn hefur talið sig hluta af sköpunarverkinu öllu, jafnrétthátt og allt sem er og öllu verði að halda í jafnvægi. Ekki síður hefur það smíðað sér guða- og gyðjufjölda, breyskari en menn, öfgafyllri og afskiptasamari í sínum fjölmörgu gjörðum og sumir valdamiklir menn talið sig af þeirri hersingu komna, einkum í karllegg. Þjóðir, þjóðflokkar og jafnvel ættbálkar hafa talið sig betur fallna en aðra til að ráðskast með sinn þekkta heim, þeim sem fyrir urðu vörðu fyrir líf sín og sinna, sjálfstæði og frelsi, - og gera enn.

Maðurinn hefur frjálsan vilja til að velja á milli góðs og ills

Landbúnaðarbyltingin fyrsta og mesta í Asíu, Norður-Afríku og Mesópótamíu til að mynda, umturnaði mannheimum fyrir um 10.000 árum. Í aldanna rás fylgdi þéttbýli; þorp, bæir og borgir. Andlega og veraldlega valdameiri menn en áður höfðu þekkst, stéttaskipting frá þeim og niður í þræla, varla þarf að taka fram muninn á veraldlegum auði og afkomumöguleikum þess fólks alls.

Vopn, verkfæri, sjálft hjólið, tamin hross, hestvagnar og hestakerrur, framfarir í bátasmíði, verslun, viðskipti, andlegar hugmyndir og veraldlegar; allt þetta þaut af stað eftir fljótum, ám, vötnum og vegakerfum, því ekki framleiddu allir það sama og allir vildu helst allt. Gervihnattafornleifafræðingar hafa komið auga á ótal löngu gleymd vegakerfi um álfur með rannsóknum sínum.

Gervihnettir koma hins vegar ekki myndaugum sínum á þær hugmyndafræðilegu tilfærslur sem bylting þessi olli, langt fram í tímann. Skýrasta dæmið, í okkar tilfelli hér í vestrænum heimi, er sennilega Alexander mikli Filippusson frá Makedóníu Grikklands. Fyrir miðja þriðju öld fyrir okkar tímatal lagði hann undir sig þekktan heiminn á áratug, með góðu og illu. Frá Adríahafi til Norður-Indlands, að ógleymdu Egiftalandi. Hugði á herferð í vestur að því loknu en lést í Babýlonborg, hugsanlega úr veirusýkingu. Hans þekkti heimur stóð ekki lengi heill og óskiptur.

Aðra sögu er að segja um andlegar afurðir herfararinnar. Sjálfur Aristóteles, nemandi Platóns og með honum einn áhrifamesti heimspekingur vestrænnar menningar, sá um menntun drengsins Alexanders, með það veganesti lagði hann upp í herför sína, hann og sveitir hans. Úr varð hellenismi, samruni menningar þeirra ríkja sem mynduðu heimsveldi Alexanders. Sál frá Tarsos eða Páll postuli, var helsti hugmynda- og ímyndarsmiður kristninnar. Gyðingur frá Litlu-Asíu, fæddur fimm árum fyrir eða eftir okkar tímatal, og meðal annars andleg afurð hellenismans og áhrifamikilla heimspekinga vestrænnar menningar.

Hvort sem okkur, bergrisum eyju þessarar líkar betur eða verr, í þjóðkirkju, öðrum trúfélögum eða engum, erum við alin upp við vestræna menningu. Hellenisminn mótar hugsun okkar en um leið er okkur auðvitað frjálst að kynna okkur aðra hugsun, spá og spekúlera. Spámaður austur í Persíu hafði nefnilega boðað 1500 til 1000 árum fyrir okkar tímatal að í heiminum tækust gott og illt stöðugt á. Maðurinn hefði hins vegar frjálsan vilja til að velja þar á milli.

Hebrearnir, sem Nebúkadnesar II Babýlónkóngur tók með sér heim að musterinu í Jerúsalem mölvuðu, fréttu þar þann boðskap og enn eldri lög Hammúrabís Babýlóníukóngs. Einhverjir þeirra tóku til við ritun gamla testamentisins, tóku með sér heim að um hálfrar aldar útlegð lokinni og urðu gyðingar. Um 200 árum áður en hellenisminn dreifðist um lönd í kjölfar herfarar Alexanders Filippussonar. Sögu mannkyns verður ekki komið fyrir í excelskjali þótt margir gjarnan vildu .....

Tengdar fréttir

Pistlar

Allir eru sömu gerðar bæði yst og innst

Pistlar

Litbrigði mannkyns til sálar og líkama

Bókmenntir

Ferðavísir puttalingsins um mannkynssöguna

Myndlist

Leitin að heimsálfum, leitin að sjálfinu