Leggja af stað í óráðið tónleikaferðalag

Mynd: Aðsend - Steinunn Arnbjörg Ste / Aðsend - Steinunn Arnbjörg Ste

Leggja af stað í óráðið tónleikaferðalag

09.08.2020 - 11:08

Höfundar

Þær Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir, sellóleikari, og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir, orgelleikari, halda af stað í tónleikaferðalag þar sem tónlist kvenna verður í fyrirrúmi. Þær segja að verkum kvenna hafi lengi verið sópað undir teppið. Hugmynd þeirra er að gramsa undir teppinu og draga fram einn og annan fjársjóð sem þar leynist.

 

Tónleikaröðin ber heitið Kvenna ráð. Fyrstu tónleikarnir verða í dag, sunnudaginn 9. ágúst kl. 17:00, í Akureyrarkirkju. Ætlunin er að halda samtals átta tónleika víðsvegar um Norðausturland. Dagsetningar flestra tónleikanna eru þó enn óráðnar og verða ákveðnar í samræmi við sóttvarnarreglur. Rætt var við Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur í Síðdegisútvarpi Rásar 2. 

Öll lögin eftir kventónskáld

Á efnisskrá tónleikanna eru einungis verk eftir kventónskáld, bæði íslensk og erlend. Steinunn segir lögin öll ólík og ekki undir merkjum neinnar sérstakrar stefnu. Langelsta verkið er barokkverk frá 17. öld en önnur verk á efnisskránni eru öll eftir konur sem fæddar eru eftir árið 1858. 

Á tónleikunum í Akureyrarkirkju verða einnig frumflutt tvö verk. Annað þeirra eftir Steinunni sjálfa, sem er þríleikur fyrir orgel og selló. Hitt verkið er orgelverk eftir Arngerði Maríu Árnadóttur, sem frumflutt verður af Sigrúnu Mögnu. 

Akureyrarkirkja tilvalinn tónleikastaður

Upphaflega átti tónleikaröðin að hefjast í vor en kófið setti strik í reikninginn. Þær ætla að reyna aftur núna og fara hægt af stað. „Við erum svo djarfar að við teljum okkur geta haldið tónleika í Akureyrarkirkju núna á sunnudaginn, hún er svo stór,“ segir Steinunn.

Sóttvarnir verða því í hávegum hafðar á tónleikunum. „Við ætlum ekki að fíflast neitt með sóttvarnir og leggja líf fólks í hættu. Við ætlum að fara eftir því sem okkur er sagt að gera, halda tveggja metra bilið og handsprittið, það verður nóg af því fyrir alla. Þannig að miðað við þau fyrirmæli sem eru núna, þá getur þetta alveg gengið. Þá er Akureyrarkirkja alveg fín, það er búið að loka öðrum hvorum bekk og það er nóg pláss,“ segir hún.

Næstu dagsetningar ekki ákveðnar

Steinunn segir að næst standi til að heimsækja Þórshöfn, Raufarhöfn og Kópasker auk Hríseyjar, Dalvíkur og Grenivíkur. Einnig ætla þær að spila í Þorgeirskirkju við Ljósavatn. Tónleikaplanið á þó eftir að koma í ljós. 

„Þetta átti að vera tónleikakrans í vor. En þó að það verði lengra á milli blóma og blaða í honum, þá höfum við í hyggju að spila þessa tónleika alla. Við erum ekki búnar að ákveða dagsetningar og þannig. Það verður bara að koma í ljós, hvað er hægt og hvenær,“ segir Steinunn og leggur áherslu á að sóttvarnir verði ávallt hafðar í fyrirrúmi á öllum tónleikunum.

„En ef það er hægt að gera eitthvað sem er skemmtilegt, án þess að láta allt fara til fjandans, þá er það ágætt. Það er gaman að hafa gaman líka, og gott,“ bætir hún við.  

Gígja Hólmgeirsdóttir ræddi við Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur í Síðdegisútvarpi Rásar 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Hlaupari á hlaupabretti stjórnar tempói tónverksins

Tónlist

Tenórinn finnur malarastúlkuna innra með sér

Klassísk tónlist

Aðgengilegri tónlist en fólk heldur

Klassísk tónlist

Fór í sálarmaraþon í gegnum sellósvítur Bachs