Krossá ófær og verulega vont veður á Fimmvörðuhálsi

09.08.2020 - 17:02
Göngubrúin yfir Krossá í Þórsmörk
Vatnsstaða er há í Krossá eins og þessi mynd sem tekin var i dag ber með sér. Mynd: Sunnefa Gunnarsdóttir
Vatnavextir í Krossá eru slíkir að rútur hafa ekki farið yfir vaðið í dag, heldur hafa þær sótt ferðalanga og sett úr við göngubrúna. Þá er verulega vont veður á Fimmvörðuhálsi og hefur göngufólki verið snúið við.

Veðurstofa Íslands hefur varað við miklum vexti í ám á Suðurlandi. Óvenju mikilli rigningu var spáð í landshlutanum í dag og há vatnsstaða er fyrir í mörgum ám og lækjum vegna rigningatíðar undanfarinna daga. Þá er að auki mikil leysing á jöklum.

Lögreglan á Suðurlandi hafði eftir skálavörðum í Þórsmörk fyrr í dag að vaðið yfir Krossá sé orðið það vatnsmikið að illfært sé fyrir dráttarvél að fara þar yfir. Þá eru árnar á Fjallabaksleið syðri illfærar óbreyttum jeppabifreiðum.

Guðrún Georgsdóttir, skálavörður í Langadal, segir mikið vatn í ánni eftir rigninguna undanfarið. „Það hefur enginn bíll farið yfir í dag,“ segir hún. Búist er við áframhaldandi rigningu næstu daga.

Verulega vont veður er á Fimmvörðuhálsinum og hefur göngufólk ýmist verið stöðvað eða snúið við á leið sinni um hálsinn. Að sögn Guðrúnar kom einn ferðalangur í Baldvinsskála í dag og var sá rennandi blautur.

Öllu skaplegra veður er fyrir göngufólk á Laugaveginum, þótt töluverð rigning sé einnig á þeim slóðum. Hefur ferðafólk verið beðið um að sýna sérstaka aðgát við vatnsföll og vöð.

Guðrún segir líka nokkuð um að fólk sem ætlaði sér að gista í tjaldi sé nú að kaupa sig inn í skála og skálaverðir leggja sig fram við að virða sóttvarnarreglur. „Við gerum okkar besta til að mæta tveggja metra reglunni og erum að brýna hana fyrir fólki,“ segir Guðrún og kveður borðum og stólum til að mynda hafa verið fækkað í Langadal.

Við Skógarfoss
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót
Ár á Suðurlandi hafa sumar flætt yfir bakka sína í dag.

Merki um vatnavexti víða

Merki um vatnavexti sjást víðar á Suðurlandi að sögn fréttamanns RÚV sem var á ferðinni frá Höfn í Hornafirði í dag og hafa ár sumsstaðar flætt lítillega yfir bakka sína. Þrátt fyrir úrhellið er mikil umferð og virðist fólki ekki láta veðrið stoppa sig. Þannig var til að mynda nokkur fjöldi ferðamanna við Skógafoss og flugvélaflakið á Sólheimasandi. 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi