
Ísland á rauðum lista allra Eystrasaltsríkjanna
Greint var frá því á föstudag að Eistland og Lettland hefðu sett Ísland á lista yfir þau ríki sem sóttkvíar er þörf á eftir dvöl þar. Þar með eru öll Eystrasaltsríkin með Ísland á rauðum lista.
Ísland er enn meðal þeirra ríkja sem Norðmenn krefja ekki um sóttkví, þó að Ísland sé komið yfir þau smitmörk sem þarlend yfirvöld hafa sett sér. Greint var frá því fyrir helgi að íslenskir ferðamenn á leið til Noregs þurfi ekki að sæta tíu daga sóttkví þótt nýgengi smita miðað við 100 þúsund íbúa sé komin yfir 20, sem eru þau mörk sem Norðmenn hafa sett sér. Í gær var smitgengi hér á landi 27.
Bretar, Danir, Svisslendingar og Þjóðverjar hafa ekki heldur fyrirskipað sóttkví fyrir þá sem koma frá Íslandi, þó síðastnefndu löndin þrjú taki mið af nýgengi þegar raðað er á lista líkt og Eystrasaltsríkin.