Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fengu eina viku til að endurhugsa listahátíð frá grunni

Listahátíðin Plan B fór fram í Borgarnesi helgina 6-9 ágúst 2020.
 Mynd: Guðrún Sóley Gestsdóttir - RÚV

Fengu eina viku til að endurhugsa listahátíð frá grunni

09.08.2020 - 16:57

Höfundar

„Þetta var hálf óraunverulegt, maður býst við 100 manna opnun og hefðbundinni hátíð eins og síðustu ár en með viku fyrirvara þurftum við að endurhugsa hátíðina algjörlega frá grunni,“ segir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, einn skipuleggjenda listahátíðarinnar Plan B sem haldin er í Borgarnesi.

Vegna hertra sóttvarnareglna varð að breyta fyrirkomulagi hátíðarinnar með hraði. „Við ákváðum að breyta aðalsýningarrýminu, sem áður hýsti Arion banka, í gluggagallerí. Við bjuggum svo vel að þar eru gluggar frá gólfi og upp og það heppnaðist virkilega vel. Við renndum auðvitað blint í sjóinn með að sýningarstýra svo stóru gluggagalleríi og hvernig það myndi koma út,“ segir Inga Björk. Í því rými eru verk eftir 7 listamenn, málverk, skúlptúrar og innsetning. Sýningin nýtist bæði gangandi vegfarendum og eins keyrandi, bílalúgugallerí mætti kalla það.

Hátíðin hófst á föstudag og stendur út næstu viku. Nokkur fjöldi fólks lagði leið sína í Borgarnes yfir helgina. „Það var mjög góð aðsókn og stöðugur straumur við rými og inn í bæinn og við sáum svo hve góðar viðtökurnar voru, svart á hvítu, þegar 140 manns fylgdust með lifandi streymi Gjörningakvölds Plan-B sem fram fór í gömlu fjósi sem breytt hefur verið í sýningarrými, Space of Milk. Þar voru bæði vídeóverk og lifandi gjörningar og það gekk lygilega vel,“ segir Inga Björk. „Við erum alveg í sjöunda himni, hvað þetta gekk smurt þrátt fyrir miklar sviptingar vikuna áður. Það er auðvitað ekki síður listamönnunum að þakka sem margir þurftu að aðlaga verk sín mikið til að þetta gengi upp.“ Alls taka 19 listamenn frá 8 löndum þátt en eitt atriði þurfti að draga sig úr hátíðinni vegna aðstæðna.

Listahátíðin Plan B fór fram í Borgarnesi helgina 6-9 ágúst 2020.
 Mynd: Guðrún Sóley Gestsdóttir - RÚV
Agnar Freyr Stefánsson, Logi Bjarnason, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir og Sigrún Gyða Sveinsdóttir eru á meðal skipuleggjenda hátíðarinnar.

Hátíðin teygir anga sína um allt Borgarnes. „Þrjú verk eru í almenningsrými sem hentar mjög vel fyrir þessar aðstæður og fólk getur bara skoðað það á eigin tempói. Þau eru mjög skemmtileg og gaman að geta smogið list inn í daglegt líf fólks. Þessi verk eru í íþróttahúsinu, í Bónus og úti við Landnámssetur Íslands,“ segir Inga. Eina rýmið sem var opið fyrir gesti var í Grímshúsi í Brákarey þar sem einn listamaður sýndi verk sitt og gestir gátu kíkt inn, með 2 metra millibili.

Listahátíðin Plan B fór fram í Borgarnesi helgina 6-9 ágúst 2020.
 Mynd: Guðrún Sóley Gestsdóttir - RÚV

Auk Ingu eru skipuleggjendur hátíðarinnar Agnar Freyr Stefánsson, ​Bára Dís Guðjónsdóttir, Guðlaug Gunnarsdóttir, Logi Bjarnason, Sigrún Gyða Sveinsdóttir og Sigþóra Óðinsdóttir.

Plan B stendur til 16. ágúst, en allar nánari upplýsingar má finna á Facebook-síðu hátíðarinnar.

Listahátíðin Plan B fór fram í Borgarnesi helgina 6-9 ágúst 2020.
 Mynd: Guðrún Sóley Gestsdóttir - RÚV
Listaverkið Samlífi eftir Þórð Hans Baldursson.