Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Enn að meta hvað hann leggur til við ráðherra

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
 Mynd: RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segist enn vera að meta hvað hann leggur til við Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, en hann vill ekki íþyngjandi aðgerðir. Honum líst ekki á fregnir frá í gærkvöldi um alltof þéttsetna veitinga- og skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur.

„Við höfum sagt að við getum komið með leiðbeiningar og reglur um boð og bönn og mjög harðar aðgerðir og það er ekki víst að fólk fari eftir því,“ sagði Þórólfur. „Þannig að okkar áskorun liggur fyrst og fremst í því að fá fólk með okkur. Fá fólk til að fara eftir því sem er verið að gera. Þannig að ég held að þetta dæmi í nótt sýni að það er áskorunin.“

Þeir Þórólfur og Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, voru gestir Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi á Bylgjunni fyrir hádegi og fréttastofan náði tali af þeim eftir þáttinn. Þórólfur segist ekki vera tilbúinn með framhald ráðlegginga til stjórnvalda um hvað taki við eftir 13. ágúst. Þær séu í sífelldri endurskoðun.

„Umræðan þarf bara að vera á þeim nótum að öll sjónarmið séu uppi á borðinu og þetta eru ein sjónarmið, þessar hörðu aðgerðir. Svo eru hinum megin á borðinu aðgerðir um að það eigi bara að opna og gera sem minnst á landamærum.“

Sjálfur segir Þórólfur sinn hug liggja einhvers staðar þarna á milli.

„Ég hef alltaf sagt það að ég tel ástæðu til að reyna að hafa sem minnst íþyngjandi aðgerðir í gangi og með mestum árangri. Við getum gert ýmislegt með mjög hörðum aðgerðum en það er ekkert endilega víst að við náum betri árangri með þeim heldur en ef við hefðum aðgerðirnar aðeins minna íþyngjandi.“

Standa frammi fyrir sársaukafullu vali

Kári segir að ríkisstjórnin verði að ákveða sem fyrst hvaða leið eigi að fara á landmærum. Valið verði sársaukafullt því annars vegar sé ferðaþjónustu fórnað en hins vegar eðlilegu skólahaldi og menningarlífi. 

Hann segist treysta Þórólfi manna best til að fara fyrir sóttvörnum, en þjóðin standi frammi fyrir vali um landamærin. Ákveða þurfi hvort halda eigi landamærum nokkuð mikið opnum, skima á þeim, og fá hingað þúsundir manna daglega. Líkurnar á því að það laumi sér inn veira séu hins vegar í línulegu hlutfalli við þann fjölda sem hingað komi.

„Skimunin á landamærum hefur gengið vel vegna þess að það eru ekkert margir einstaklingar sem hafa komið inn í landið með veiruna síðan 15. júní,“ sagði Kári og minnti á að flestir þeirra sem hafi reynst smitaðir við landamæraskimun hafi verið Íslendingar.

„Engu að síður þá er ein veira, ein tegund af þessari veiru, eða veira með eina tegund af stökkbreytingarmynstri sem er búin að breiða úr sér út um allt.“ Sagði Kári yfir 30 hópa veirunnar hafa greinst í íslensku samfélagi, sem sumir séu með upp undir tuttugu manns, en ekki liggi fyrir hvernig þeir tengist.

„Sem er nokkuð ógnvekjandi,“ sagði Kári og kvað landsmenn þurfa að spyrja sig hvort þeir vilji búa við að slíkt gerist með reglulegu millibili. „Það hefur áhrif á lífsstíl í landinu. Það gerir það að verkum að það verður erfitt að opna skóla eða að minnsta kosti hafa skólastarfið með því sniði sem við venjumst. Það er erfitt að halda uppi menningarlífi og svo framvegis.“

Hin leiðin sé að loka landinu þannig að allir verði skimaðir á landamærum, fari síðan í fimm daga sóttkví og svo aftur í skimun. Með því væri ferðaþjónustunni fórnað, sagði Kári og að það væri stjórnvalda að taka slíkar ákvarðanir. Þær þurfi hins vegar að taka sem fyrst þar sem skólahald sé að hefjast

„Þannig að ég held að við séum í tvenns konar krísu. Við erum annars vegar í krísu sem á rætur sínar beint í þessari veiru og hins vegar í krísu sem á rætur sínar í því að við verðum að fara í gegnum mjög sársaukafullt val.“