Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki tímabært að hafa áhyggjur af áhættulistunum

09.08.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Töluverður fjöldi fólks frá Eystrasaltsríkjunum býr og starfar á Íslandi, en Litháen bætist á mánudag í hóp þeirra ríkja sem hafa sett Ísland á áhættulista vegna fjölgunar kórónuveirusmita. 

Þar með skilgreina öll Eystrasaltsríkin Ísland sem áhættusvæði, en greint var frá því á föstudag að Eistland og Lettland hefðu sett Ísland á lista yfir þau ríki sem fara þarf í sóttkví eftir dvöl á.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir Eystrasaltslöndin ekki vera í hópi vinsælustu ferðamannastað Íslendinga.

„Eystrasaltslöndin eru svona ekki hefðbundið stærsta ferðamannasvæðið, hvorki fyrir íslenska ferðamenn né komur hingað,“ segir hann.

Rúmlega 4.000 manns með ríkisfang í löndunum þremur bjuggu hins vegar og unnu hér á landi í fyrra samkvæmt Hagstofu Íslands. „Þannig að það er eitthvað um ferðir á milli og ferðamenn, en það hefur náttúrulega verið töluvert minna núna undanfarna mánuði heldur en í eðlilegu ári,“ segir Jóhannes.

Ísland er enn meðal þeirra ríkja sem Norðmenn krefja ekki um sóttkví, þó Ísland sé komið yfir þau smitmörk sem þarlend yfirvöld hafa sett sér. Bretar, Danir, Svisslendingar og Þjóðverjar hafa ekki heldur fyrirskipað sóttkví fyrir þá sem koma frá Íslandi, þó síðastnefndu löndin þrjú taki mið af nýgengi þegar raðað er á lista líkt og Eystrasaltsríkin.

Skiptir máli hvernig tekst að vinna á veirunni innanlands

Jóhannes segir ekki tímabært að beina áhyggjum að því hvort að fleiri ríki muni setja Ísland á lista yfir áhættusvæði.

„Það hvernig okkur tekst að vinna hérna innanlands á heilbrigðismálunum, það skiptir náttúrulega máli bæði fyrir allt samfélagið hér og þá líka á endanum fyrir það hvort að ferðamenn komast til og frá landinu. Þannig að ég held að á öllum vígstöðvum þá skiptir máli að við förum eftir fyrirmælum og klárum okkur af þessum hópsýkingum sem eru hér í gangi í dag.“