Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki til framdráttar að hneykslast á málnotkun annarra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ekki til framdráttar að hneykslast á málnotkun annarra

09.08.2020 - 19:55

Höfundar

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, segir að það sé misskilingur að tungumálinu sé gerður greiði með því að hneykslast á málnotkun annarra. Hann hefur sagt skilið við Málvöndunarþáttinn, sem er Facebook-hópur þar sem spjallað er um íslenskt málfar og málnotkun. Eiríkur stofnaði nýjan hóp á Facebook, sem verður vettvangur fyrir jákvæðari umræðu um íslenskt mál.

Eiríkur tilkynnti um útgöngu sína í pistli sem hann birti á vegg hópsins á föstudag. Í pistlinum gagnrýnir hann óvægna umræðu í hópnum, sem hann telur leggja lítið af mörkum til málvöndunar. 

„Orðræða af þessu tagi er ólíðandi og þeim sem viðhafa hana til minnkunar. Hún er móðgandi og særandi – í raun árás á það mál sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði, árás á sjálfsmynd þess. Og hún er sannarlega ekki til þess fallin að efla íslenskuna því að hún gerir fólk óöruggt og fælir það frá að nota málið – ýtir undir málótta. Iðulega virðist tilgangurinn fremur vera að hreykja sér af eigin kunnáttu en leiðbeina öðrum. En það er aldrei vænlegt til árangurs að tala niður til fólks. Íslenska er nefnilega alls konar – og á að vera það,“ segir í pistli Eiríks. 

Eiríkur segir í samtali við fréttastofu að hann hafi verið meðlimur í Málvöndunarþættinum í þónokkur ár. Hann segir að fyrir um ári síðan hafi komið upp umræða í hópnum sem honum blöskraði og í kjölfarið fór hann að reyna að breyta andanum þar. Um hríð skrifaði hann daglega pistla og fékk við þeim ágæt viðbrögð. Hann segir að umræðan hafi verið heldur neikvæð að undanförnu en kornið sem fyllti mælinn var ósanngjörn umræða um framburð Lilju Alfreðsdóttur á orðinu „skólarnir“, sem hún bar fram án þess að stafurinn „r“ heyrðist. Að mati þeirra sem tóku þátt í umræðunni var framburður Lilju á orðinu ófullnægjandi og margir létu þung orð falla um ráðherrann. Af því tilefni skrifaði Eiríkur færslu á vegg hópsins þar sem hann gagnrýndi þessa hörku og áréttaði að framburður Lilju á orðinu sé í samræmi við þekktan framburð sem tengdur er við Suðurland.

Umræða um íslenskt mál almennt óþroskuð

Aðspurður hvort almenn umræða um íslenskt mál sé jafnóvægin og tíðkast innan Málvöndunarþáttarins segir Eiríkur að svo sé sennilega ekki. Hann hefur á tilfinningunni að um háværan minnihluta sé að ræða. Að mati Eiríks er umræða um íslenskt mál þó almennt mjög óþroskuð, sem til dæmis endurspeglast í samræmdum prófum og kennslu í skólum. „Ég held að íslensk málfarsumræða myndi styðja miklu betur við íslensku framtíðarinnar ef hún væri jákvæðari og opnari, í staðinn fyrir að okkur sé kennt hvernig hlutirnir eiga að vera og hafa alltaf verið,“ segir hann.

Eiríkur segir að þekkt sé hér á landi að málræktendum finnist að tungumálið ætti að vera nákvæmlega eins og þeir ólust upp við. Spjótum er gjarnan beint að ungu fólki, sem talar öðruvísi en þeir sem eldri eru. Eiríkur telur að óvægin umræða um tungutak ungs fólks geti gert það að verkum að viðhorf þessa hóps gagnvart tungumálinu verði neikvæðara. Að hans mati getur fólk  auðveldlega misst áhugann á íslensku ef sífellt er verið að leiðrétta það og gagnrýna. 

Minnir á andann í kommentakerfinu

Eiríkur áréttar að umræða um íslenska tungu hafi gjarnan verið fordómafull og harkaleg í gegnum árin. Oft var fólk úthrópað fyrir málfar eða málnotkun í dagblöðum eða fjölmiðlum. Nú hefur umræðan hins vegar færst á samfélagsmiðlana. En hvað vakir fyrir fólki sem hneykslast í sífellu á málfari annarra?

„Að sumu leyti er þetta bara eins og andinn í kommentakerfum almennt. Bara eitthvað til að kvarta undan og hneykslast á. Hvort sem það er málið eða eitthvað annað – það skiptir ekki alltaf máli. En ég efast ekkert um það að hjá megninu af þessu fólki er það sem býr að baki virkilegur áhugi og ást á tungumálinu,“ segir Eiríkur. 

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Eiríkur Rögnvaldsson fær verðlaun Jónasar

Íslenskt mál

Íslenskan ekki að deyja út á næstu árum