Blaðamaður véfengdi margtuggða fullyrðingu Trump

09.08.2020 - 18:59
epa08588636 US President Donald J. Trump departs after speaking at the Whirlpool Corporation Manufacturing Plant in Clyde, Ohio, USA, 06 August 2020. Ohio Governor DeWine on 06 August 2020 announced he was tested positive for coronavirus, shortly before he was scheduled to meet US President Trump.  EPA-EFE/DAVID MAXWELL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti batt skyndilegan enda á fund með fjölmiðlum í gær, eftir að fréttamaður véfengdi fullyrðingu um heilbrigðislöggjöf sem forsetinn hefur haldið á lofti að minnsta kosti 150 sinnum.

Fréttastofa CNN segir Trump hafa rætt við fjölmiðla á Bedminster golfklúbbi sínum í New Jersey. Forsetinn var þar staddur til að kynna fjárhagsaðgerðir stjórnar sinnar vegna kóróunuveirunnar.

Trump fullyrti einnig að hann hefði komið því í gegnum þingi að fyrrverandi hermenn fengju heilbrigðisþjónustu í nærumhverfi sínu í stað þess að bíða eftir að komast að hjá heilbrigðisþjónustu hersins.

„Þeir reyndu að koma þessu í gegn áratugum saman og enginn forseti fékk þetta samþykkt fyrr en að við gerðum það,“ sagði Trump.

Hið rétta er að lögin voru samþykkt í forsetatíð Barack Obamas árið 2014 með dyggum stuðningi tveggja öldungadeildarþingmanna sem Trump hefur ítrekað gagnrýnt. Annar þeirra var repúblikaninn John McCain, sem lést árið 2018,og hinn var demókratinn og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders.

Trump undirritaði hins vegar árið 2018 breytingar á lögum sem juku þjónustuna sem fyrrverandi hermönnum stendur til boða.

CNN segir að frekar en að halda því frumvarpi á lofti hafi forsetinn ítrekað fullyrt að hann væri höfundur hinna laganna sem öðrum hafi mistekist að koma á í 50 ár.

 „Af hverju heldurðu áfram að fullyrða að þú hafir komið lögunum á,“ sagði þingfréttaritari CBS, Paula Reid og lét tilraunir forsetans til að fá spurningu frá öðrum fjölmiðlum ekki stöðva sig. Heldur ítrekaði hún spurningu sína og benti á að Trump færi þarna með rangindi.

Trump hikaði þá, þakkaði fyrir sig og gekk út.

CNN segir engan hafa véfengt fullyrðingar forsetans um lögin með þessum hætti áður.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi