Beita sektum og lokunum frá og með deginum í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun frá og með deginum í dag beita sektum og jafnvel lokunum á þeim skemmti- og veitingastöðum sem ekki virða fjölda- og fjarlægðartakmarkanir. Þetta sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.

Greint var frá því í morgun að fjöldi veitinga- og skemmtistaða sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kannaði í gærkvöldi hafi þverbrotið sóttvarnareglur og treysti lögreglan sér hreinlega ekki inn á suma staðina vegna smithættu. 

Ásgeir Þór sagði lögreglu hafa farið í margar heimsóknir á veitinga- og skemmtistaði undanfarið og komið ábendingum á framfæri. Of margir eigendur hafi gert litlar eða engar ráðstafanir þrátt fyrir tiltal.

„Í gær keyrði hins vegar um þverbak,“ sagði Ásgeir Þór og kvað um stórfellt brot á tveggja metra reglu hafa verið að ræða. „Við erum þess vegna nauðbeygð til að herða aðgerðir.“

Frá og með deginum í dag mun lögreglan á höfuðborgarsvæðinu því beita þá veitinga- og skemmtistaði sektum sem ekki virða fjölda- og fjarlægðartakmarkanir. „Og ef um alvarlegri brot er að ræða þá verður staðurinn rýmdur og lokað tímabundið,“ bætti hann við og sagði eigendur þeirra staða sem beittir verði lokunum þá geta athugað næsta dag hvort þeir fái heimild til að opna, að því gefnu að þeir séu að bregðast við athugasemdum.

Leið sem við vonuðum að við þyrftum ekki að fara

„Þetta er leið sem við vonuðum að við þyrftum ekki að fara,“ segir Ásgeir Þór og bætir við að það sé þó einnig þeirra sem staðina sækja að beita almennri skynsemi og yfirgefa staði þar sem þeir sjái að tveggja metra reglan sé ekki virt.

Hann segir lögreglu þá vilja minna á að tveggja metra reglan gildir líka utanhúss. „Við sjáum að þegar lokað er klukkan ellefu þá skapast ástand utan við stærstu staðina þar sem fólk hegðar sér eins og enginn faraldur sé og faðmast eins og enginn sé morgundagurinn.“

Ekki verði við það unað að haldið verði áfram með sama hætti. „Því útkallsliðið getur ekki verið í því að mæla hvort tveir metrar séu á milli manna.“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði á fundinum að það væri áskorun að reyna að finna réttu leiðina til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Að beita sektum og lokunum væri síðasta úrræðið. Kvaðst hann vona að menn sæju að sér, svo hægt verði að ná sameiginlegum markmiðum.

Þá ítrekaði Alma Möller landlæknir að vel komi til greina að herða á fjöldatakmörkunum. „Það er allt áfram til skoðunar,“ sagði hún.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi