Minnst 22 fórust þegar aurskriða féll í Keralaríki á Indlandi á föstudagskvöld og tuga er saknað. Regntímabilið stendur sem hæst eystra og veldur miklum vatnavöxtum, flóðum og skriðuföllum.
Kerala, sem er í landinu sunnanverðu, hefur ekki farið varhluta af vatnsveðrinu síðustu daga. Á föstudagskvöld urðu skýfall og vatnavextir til þess að mikil aurskriðaféll á þorp í Idukki-héraði og færði fjölda húsa í kaf. Björgunarliði hefur tekist að ná líkum 22 þorpsbúa upp úr eðjunni en 44 er enn saknað og er þeirra leitað við afar erfiðar og hættulegar aðstæður. Flestir þorpsbúa eru úr hópi verkafólks sem vinnur við tetínslu á nálægri teplantekru.
Hundruð hafa farist og tugir þúsunda misst heimili sín í flóðum og skriðum á Indlandi það sem af er þessu regntímabili, sem hófst í júní og stendur yfirleitt fram í september.