Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vill að hagfræðin taki meira mið af raunveruleikanum

08.08.2020 - 12:42
Jóhannes Þór Skúlason
 Mynd: Þór Ægisson
Framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar vísar því á bug að greinin hafi beitt þrýstingi til að opna landið fyrir ferðamönnum. Málið snúist um sóttvarnir og efnahagslegar afleðingar vegna COVID og sóttvarnir hafi ráðið ferðinni. Hann telur að hagfræðin þyrfti stundum að taka aðeins meira mið af raunveruleikanum.

Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor segir í grein í Vísbendingu að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið teknir fram yfir hagsmuni annarra þegar kom að opnun landamæranna.

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir þetta mikla einföldun hjá Gylfa, ljóst hafi verið að taka þyrfti mið af sóttvarnarsjónarmiðum annars vegar og efnahagslegum hins vegar. Einn möguleikinn hefði verið að allir sem kæmu til landsins færu í tveggja vikna sóttkví.

„Ferðaþjónustan hefur ekki beitt neinum beinum þrýstingi gagnvart sóttvarnaraðgerðum, það er alveg mjög mikilvægt að hafa það á hreinu, það hefur komið fram hjá bæði Víði Reynissyni og Þórólfi sóttvarnalækni. Þannig að okkar hlutverk sem atvinnugreinar í þessu er að benda á hinn efnahagslega vanda sem að fylgir því að vera með landið lokað fyrir ferðamönnun, þannig að vera með 14 daga sóttkví á alla og þær staðreyndir sem liggja að baki vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að þetta er ákvörðun sem að þarf að taka bæði þessi sjónarmið til greina,“ segir Jóhannes Þór.  

Gylfi bendir á að Íslendingar hafi eytt 200 milljörðum króna erlendis í fyrra, en í sumar hafi þeir eytt stórum hluta þessara fjármuna hér á landi. Jóhannes Þór segir að taka þurfi fleira til greina, þetta sé ekki bara spurning um greiðslujafnvægi. Þetta snúist líka um að fyrirtækin lifi, það þurfi að horfa inn í veturinn og að fyrirtækin geti haldið fólki í vinnu. Hann vísar orðum Gylfa um að ferðaþjónustan hafi verið hávær á bug.

„Við skulum segja að mér finnst að hagfræðin þyrfti stundum að taka aðeins meira mið af raunveruleikanum.“

Jóhannes Þór segir að vitað hafi verið að önnur bylgja COVIS myndi skella á.

„Það er hins vegar og liggur í augum uppi að þegar innanlandssmit dreifast hratt, þá er það ekki vegna þess að einhverjir hafi borið með sér veiru að utan. Heldur er það beinlínis vegna þess að við erum ekki sjálf að sinna kannski okkar persónulegu smitvörnum nægilega vel. Það er eitthvað sem við verðum að taka okkur verulega á í og ég hvet  bæði aðila í okkar grein og annars staðar, almenning og okkur til þess að gera það vel.“