Þórdís Kolbrún: Rétt að hleypa ferðamönnum inn

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ferðamálaráðherra segir að rétt hafi verið að opna fyrir flæði erlenda ferðamanna til landsins. Góð innlend eftirspurn í ferðaþjónustu sé ekki sjálfbær þar sem hún komi að hluta úr sameiginlegum sjóðum. 

Segir stjórnvöld ofmeta ábatann

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra hafnar gagnrýni Gylfa Zöega hagfræðiprófessors um að rangt hafi verið að opna fyrir flæði ferðafólks til landsins. Gylfi sagði í viðtali við RÚV að að stjórnvöld hefðu ofmetið ábatann af því. Hann bendir á að opnunin hafi líka falið í sér að Íslendingar færu til útlanda. Ef stjórnvöld hefðu ekki slakað á ferðatakmörkunum hefði eftirspurn Íslendinga innanlands bætt upp fyrir tekjumissinn af erlendum ferðamönnum að miklu leyti.

Örfáir ferðamenn smitaðir

Þórdís Kolbrún segir innlenda eftirspurn t.d. koma að hluta úr sameiginlegum sjóðum og þess vegna sé hún ekki sjálfbær. „Það liggur auðvitað fyrir að við getum ekki haft landið lokað þangað til og ef bóluefni finnst. Landinu hefur aldrei verið lokað. Við gerðum á tímabili þá kröfu að ferðamenn færu í tveggja vikna sóttkví. Nú erum við að skima. Við höfum gögn sem sýna að örfáir erlendir ferðamenn eru smitaðir á landamærunum. Af þessum litla hóp sem er smitaður eru líka Íslendingar, bæði búsettir hér og þeir sem eru að koma í heimsókn. Þannig að áhættan er í mínum huga ásættanleg. Þessa skoðun byggi ég líka á málflutningi frá sóttvarnaryfirvöldum,“ segir Þórdís Kolbrún. 

Innlend eftirspurn ekki sjálfbær

„Það er líka erfitt fyrir mig að vera sammála því að, af því að við erum með þessa sjálfvirku sveiflujafnara í okkar kerfum, að þá séum við að tryggja eftirspurn þegar hún kemur úr sameiginlegum sjóðum þegar fólk hefur ekki vinnu. Þannig að það er ekki sjálfbært heldur. Þannig að til þess að halda efnahagslífinu gangandi þá getum við ekki haft landamærin lokuð til eilífðarnóns.“  

Gylfi talar um það að innlend eftirspurn hafi aukist mjög af því að við erum ekki að eyða peningum í útlöndum heldur hér heima. Vegur það ekki upp á móti, ef landið væri lokað? 

Heilsársrekstur ekki byggður á nokkrum vikum

„Sú staða er mjög góð og við erum ofboðslega ánægð að sjá þá stöðu. En áhættan af því að skima og hleypa fólki inn er svo lítil að ég get ekki fallist á þau rök að hún sé svo mikil að það eigi bara að loka landi og ekki hleypa fólki inn til þess að tryggja þessa innlendu eftirspurn. Þú byggir ekki heilsársrekstur á því að fá nokkrar góðar vikur þar sem við sem leyfum okkur meira í mat og drykk erum að gera gott fyrir reksturinn. Svo eru stóru hótelin eftir hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem staðan er hreint út sagt hörmuleg.“  

Sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. 

 

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi