Telur COVID bylgjuna núna rísa hægar en þá síðustu

08.08.2020 - 18:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nýjustu tölur benda til þess að önnur bylgja kórónuveirufaraldursins fari ekki jafn hratt upp og sú fyrsta, að mati prófessors í líftölfræði. Hann segir að fyrsta spálíkanið um þróun faraldursins verði birt næsta föstudag.

Vísindamenn frá Háskóla Íslands, Embætti landlæknis og Landspítala gerðu spálíkan um líklega þróun COVID-19 þegar faraldurinn hófst og nú er unnið að nýju líkani fyrir yfirstandandi bylgju. Enn vantar frekari upplýsingar en þegar er kominn samanburður við fyrri bylgju og hér má sjá hvernig þróun innanlandssmita hefur verið og eru tölur dagsins teknar þar með. Í þessari bylgju var gripið til 100 manna samkomutakmarkana fjórum dögum fyrr en síðast og tala tölurnar sínu máli.

„Þær segja okkur það, vonandi, að við erum ekki að fara eins hratt upp og síðast, þannig að maður er með þá von í brjósti,“ segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands.

Hann segir ekki nógu miklar upplýsingar liggja fyrir því það séu sveiflur og síðast hafi faraldurinn sprungið út nokkrum dögum lengra inn í bylgju en við erum núna í þessari. 

„ Það er margt svipað til að byrja með, vöxturinn og svo kannski hægir þetta aðeins á. Svo er margt breytt núna, við erum með öflugri varnir, við kunnum meira á þetta, við settum inn 100 manna samkomubannið til dæmis fyrr. Þetta eru ekki alveg sömu aðstæður heldur.“

Þá hefur smitstuðullinn verið skoðaður, en hann segir til um hve marga smitaður einstaklingur smitar og gæti gefið vísbendingar um styrk veirunnar. Að sögn Thors virðist stuðullinn eins í bylgjunum báðum.

„Hann er rúmlega tveir núna, jafnvel tveir og hálfur eins og hann var hérna um miðjan mars.“
Sem þýðir þá að hver einstaklingur er að smita tvo til tvo komma fimm aðra einstaklinga?
„Já, að meðaltali. Ef það fengi að ganga óáreitt þá myndum við sjá þennan veldisvísisvöxt, þá færi þetta algjörlega úr böndunum. Þannig að það er um að gera að reyna að hemja þetta einhvern veginn núna og það vonandi er að takast.“

Þá hrósar Thor smitrakningarteyminu sem vinni mjög mikilvægt starf og hafi greinilega tekist að þróa það vel í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu. Þau geti nýtt upplýsingar hvort frá öðru. En það að ekki hafi tekist að tengja öll smit skapi óvissu. Hann segir stutt í spálíkan sem ætti að gefa góða mynd af því hversu skæður faraldurinn gæti orðið.

„Það væri eðlilegt að miða við tuttugu daga frá byrjun eins og við gerðum síðast og þá myndi vera á föstudaginn jafnvel tækifæri til að setja fyrsta spálikanið út.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi