Sterkur grunur um COVID-smit á Hrafnistu

08.08.2020 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúar á tveimur hjúkrunardeildum Hrafnistu í Laugarási hafa verið settir í sóttkví vegna gruns um kórónuveirusmit hjá einum íbúanna. María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri Hrafnistu, segir að ákveðið hafi verið að setja deildirnar Sólteig og Mánateig í sóttkví eftir að grunurinn vaknaði í hádeginu í dag.

„Það er ekki um staðfest smit að ræða, en það er sterkur grunur,“ segir María Fjóla í samtali við fréttastofu. Íbúinn sem veiktist er nú á Landspítalanum. Hún ítrekar að vel sé fylgst með íbúum og enginn annar sýni merki um veikindi.

Að sögn Maríu Fjólu var brugðist strax við og deildirnar tvær settar í sóttkví til að tryggja öryggi. „Við vinnum eins og þetta sé staðfest smit og erum að loka til að leyfa okkur að vinna,“ bætir hún við. Vinna er nú í gangi með smitrakningarteymi almannavarna, auk þess sem unnið er að því að upplýsa aðstandendur íbúa.

Um 60 manns búa á deildunum tveimur, sem skiptast niður í fjórar fimmtán manna einingar og segir María Fjóla það fyrirkomulag gera auðveldara um vik að loka einingarnar af.

Alma Möller landlæknir var spurð að því á upplýsingafundi almannavarna í dag hvort eitt af smitunum þremur sem greindust í gær tengdust öldrunarstofnun og sagðist hún ekki geta staðfest að svo væri.

Að sögn Maríu Fjólu vonast stjórnendur Hrafnistu til að fá staðfestingu á því fyrir dagslok hvort um kórónuveirusmit sé að ræða. Í kjölfarið verður skoðað betur hverjir verði settir í sóttkví og hvort setja þurfi einhvern hóp starfsfólks í úrvinnslusóttkví á meðan beðið er eftir niðurstöðum.

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi