Líkamsárás í Skeifunni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Tilkynnt var um líkamsárás í Skeifunni á fyrsta tímanum í nótt. Þar höfðu þrír veist að ungum manni, rænt síma hans og greiðslukorti áður en þeir hurfu af vettvangi.

Sá sem fyrir árásinni varð var með áverka í andliti og var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild Landspítalans. Ekki er vitað hvort meiðsl hans voru alvarleg.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru þeir sem fyrir árásinni stóðu ekki komnir í leitirnar, en málið er í rannsókn.

Um hálfáttaleytið í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um  tónlistarhávaða við Ingólfstorg. Þar var þá staddur maður á reiðhjóli með stórt hátalarabox og var hann í annarlegu ástandi. Eftir lögregla hafði afskipti af honum tók hann að berja í rúður veitingastaðar, en hann er einnig grunaður um að hafa haft í hótunum.

Maðurinn var því handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann fékk að sofa úr sér í nótt.

Þá handtók lögregla tvo karla og tvær konur í íbúð í fjölbýlishúsi í hverfi 105, en þau eru grunuð um sölu og vörslu fíkniefna. Voru þau öll vistuð í fangaklefa í nótt vegna rannsóknar málsins.

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi